Meginkrafan að læknar tali íslensku

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, kveður það meginkröfu félagsins að …
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, kveður það meginkröfu félagsins að læknar sem starfa á landinu séu mæltir á íslenska tungu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Almennt hefur Læknafélagið þá afstöðu að læknar sem starfa hérlendis tali íslensku og þá fyrst og fremst vegna öryggis sjúklinga,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá í gær hér á vefnum verður í væntanlegri reglugerð heilbrigðisráðherra um meðferð umsókna þriðjaríkisborgara um starfs- og sérfræðileyfi ekki gerð krafa um íslenskukunnáttu heilbrigðisstarfsfólks.

„Ef það er klár læknaskortur og íslenskumælandi læknar fást ekki til starfa sé tryggt að enskukunnátta sé góð og viðkomandi vinnuveitandi tryggi að það að læknir tali ekki íslensku komi ekki niður á öryggi sjúklinga með neinum hætti,“ heldur Steinunn áfram af afstöðu félagsins.

Skyldi fyrri reynslu vera til að dreifa þar sem tungumálakunnátta hefur orðið einhvers konar ásteytingarsteinn?

„Svo ég tali fyrir læknastéttina hefur það ekki verið vandamál hingað til, ekki svo ég viti til alla vega. Þeir sem hafa verið hér starfandi og ekki talað íslensku hafa þá oftast ekki verið í samskiptum við sjúklinga. Hér hafa til dæmis verið röntgenlæknar sem tala ekki íslensku en það hefur ekki komið að jafn mikilli sök þar sem þeir hafa ekki verið í þessum beinu samskiptum,“ svarar Steinunn.

Túlkafyrirkomulag reynst ágætlega

Viti hún hins vegar til þess að enskumælandi læknar hafi verið starfandi á bráðamóttöku en þá þannig að með þeim hafi verið íslenskur starfsmaður sem annaðist túlkun og stuðning. „Þetta hafa þá verið læknar sem koma þarna inn með sérþekkinguna en þurfa aðstoð við samskipti við skjólstæðingana,“ segir formaðurinn enn fremur.

Skilst henni að það fyrirkomulag hafi reynst ágætlega en ítrekar undir lokin að aðalkrafa félagsins sé að læknar tali íslensku, það sé meginreglan. „Annars þyrfti að koma til sannanlegur skortur, að íslenskumælandi læknar fáist ekki til starfa. Eins er mikilvægt að þegar viðkomandi kemur til starfa tileinki hann sér íslensku, læri hana samhliða starfinu.“

Mun Læknafélag Íslands beita sér á einhvern hátt til að koma þessum sjónarmiðum sínum og kröfugerð á framfæri?

„Þetta mál er í skoðun hjá okkur núna og mun álit berast frá félaginu bráðlega,“ segir Steinunn Þórðardóttir að lokum.

Landspítalinn í Fossvogi er vinnustaður fjölda lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks. …
Landspítalinn í Fossvogi er vinnustaður fjölda lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks. Steinunn Þórðardóttir segir sannanlegan skort á íslenskum læknum vera forsendu þess að meginsjónarmið stjórnar Læknafélagsins víki. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert