Nuddari ákærður fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness mbl.is/Ófeigur

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært nuddara fyrir nauðgun, en samkvæmt ákæru átti atvikið sér stað 5. og 6. janúar árið 2021. Er maðurinn ákærður fyrir að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við konu án hennar samþykkis. Málið er nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Kemur fram í ákærunni að maðurinn hafi kysst bak konunnar, nuddað hana á milli rasskinna, nuddað kynfæri hennar utan klæða og svo sett fingur inn í leggöng hennar, henni að óvörum, þar sem hún lá léttklædd á nuddbekk. Segir jafnframt að maðurinn hafi beitt ólögmætri nauðung með því að misnota sér það traust sem konan bar til hans.

Auk þess sem farið er fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar þá fer konan fram á eina milljón í einkaréttarkröfu.

Nokkra athygli vöktu sambærileg mál þar sem nuddarinn Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson var í tveimur aðskildum málum dæmdur í samtals sjö ára fangelsi fyrir að nauðga konum á nuddstofu sinni, en auk þess voru fleiri kærur gegn honum lagðar fram. Áttu þau brot sér stað árin 2009-2015. Hefur mbl.is fengið staðfest að ekki sé nú um að ræða mál sem tengist Jóhannesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka