Sá sem lést var karlmaður um áttrætt

Tilkynning um óhappið barst til lögreglu klukkan 20.16 í gærkvöldi.
Tilkynning um óhappið barst til lögreglu klukkan 20.16 í gærkvöldi. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Tildrög slyssins við Nausthamarsbryggju í Vestmannaeyjum í gærkvöldi þar sem bíll fór í höfnina, eru enn til rannsóknar. Fulltrúi rannsóknarnefndar samgönguslysa mun taka þátt í rannsókninni.

Þetta staðfestir Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í samtali við mbl.is.

Ökumaður bílsins, sem var um áttrætt, var úrskurðaður látinn í gærkvöldi. Mikið viðbragð var á svæðinu og var bíllinn dreginn upp úr höfninni í gær.

Jóhannes segir tilkynningu hafa komið til lögreglunnar klukkan 20.16 í gærkvöldi frá skipverjum á bát á leið úr höfn, Skipverjarnir sáu bílinn fara í höfnina og hringdu þá á neyðarlínuna.

Spurður hvort að atvik sem þetta hafi komið fyrir áður á svæðinu segir Jóhannes svo vera.

„Því miður hefur þetta nú gerst hér. Frá því ég byrjaði hafa nokkur tilvik komið hér upp þar sem ökutæki hafa lent í höfninni,“ segir Jóhannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert