Hæstiréttur hefur samþykkt málskotsbeiðni Icelandair og hótelkeðjunnar Berjaya í máli þar sem þeim var gert að greiða fasteignafélaginu Suðurhúsum 137 milljónir vegna vangoldinnar leigu sem Berjaya taldi að „force majeure“-ákvæði næði til vegna faraldursins. Hafði Landsréttur ekki fallist á það og dæmt félögin til að greiða Suðurhúsum upphæðina.
Upphaf málsins nær til þess þegar Icelandair hotels, þá í eigu Icelandair, skrifuðu undir samkomulag við Suðurhús um leigu á húsnæðinu að Hafnarstræti 17-19 þar sem Icelandair Hotels og síðar Berjaya hefur rekið Reykjavík Konsúlat Hotel. Samningurinn var gerður árið 2014 og náði til ársins 2036.
Icelandair seldi hótelkeðju sína síðar til Berjaya, en gekkst undir að bera ábyrgð á greiðslu sex mánaða leigu.
Í heimsfaraldrinum var hótelinu lokað um tíma og greiddi leigutakinn þá aðeins 20% af umsömdu leigugjaldi frá apríl 2020 til nóvember sama ár. Suðurhús fóru fram á að fá greiddar vangoldnu leigutekjurnar samkvæmt samningnum.
Berjaya taldi að svokallað „force majeure“-ákvæði næði til þeirra aðstæðna sem áttu sér stað í faraldrinum, þ.e. að brostnar forsendur væru til staðar sem væru ófyrirsjáanlegar og óviðráðanlegar og væru ótengdar rekstrinum að öðru leyti.
Hæstiréttur féllst á með Icelandair og Berjaya að dómur í málinu gæti haft verulegt almennt gildi um efndir og uppgjör í viðvarandi samningssambandi með hliðsjón af áhrifum ófyrirsjáanlegra og óviðráðanlegra ytri atvika og þýðingu ógildingarreglna samningaréttar við slíkt uppgjör. Var beiðnin því samþykkt og verður málið tekið fyrir í Hæstarétti.