„Þetta er bara rútínubréf“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Hákon Pálsson

Reykja­vík­ur­borg ákvað sem kunnugt er að hætta við fyr­ir­hugað skulda­bréfa­út­boð sem átti að fara fram í dag. Þetta er í annað sinn á tveim­ur mánuðum sem borg­in hætt­ir við fyrirhugað skulda­bréfa­út­boð.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ástæðurnar fyrst og fremst tvær.

„Við erum á áætlun varðandi lántökur. Við erum búin að taka 7 af 21 milljarði sem við áætlum á þessu ári og fjárstýringin og fjármálasviðið, sem hefur það hlutverk að meta aðstæður á markaði hverju sinni, taldi á þessum tímapunkti skynsamlegt að bíða þar sem við þyrftum ekki á auknu lánsfé að halda.“

Ekki hætt á skuldabréfamarkaði

Dagur segir þetta ekki þýða að borgin sé hætt á skuldabréfamarkaði en aðstæður séu með þeim hætti að ekki sé skynsamlegt að gefa út núna.

„Við höfum gert samninga við tvo banka í vetur, annars vegar Landsbankann, sem við notuðum til að klára fjármögnun síðasta árs og svo Íslandsbanka sem er ekki fullnýtt og enn opin.“

Hann segir lakari kjör ekki endilega fást í gegnum lánalínur en með útgáfu skuldabréfa.

„Í skuldabréfaútboði ertu að festa vexti til mjög langs tíma en í lánasamningum við banka geturðu samið um breytilega vexti. Þannig að mat okkar hefur verið að það geti verið hagstætt að taka slík kjör.

Við teljum að vextir séu í nokkurs konar hámarki um þessar mundir en bæði eigum við von á því að verðbólga fari niður og staðan á markaði batni þegar fram í sækir,“ segir hann.

Staðan metin á hverjum tíma

Spurður um fjármögnun reksturs borgarinnar í framhaldinu vísar hann til skuldabréfaútgáfuáætlunar borgarinnar en samkvæmt henni er áformað að næst verði skuldabréfaútboð 10. maí og þá 7. júní, sem jafnframt yrði síðasti útgáfudagurinn af þeim sex sem voru í upphaflegri áætlun.

„Við búumst við að fylgja áætluninni en alltaf með þeim fyrirvara að við metum stöðuna á hverjum tíma,“ segir Dagur.

Uppfyllir ekki öll lágmarksviðmið

Borgin er eitt þeirra sveit­ar­fé­laga sem eft­ir­lits­nefnd með fjár­mál­um sveit­ar­fé­laga seg­ir ekki upp­fylla öll lág­marks­viðmið fyr­ir A-hluta rekstr­ar. Nefnd­in sendi ný­verið bréf með at­huga­semd­um til 21 sveit­ar­fé­lags vegna fjár­hags­áætl­un­ar fyr­ir árið 2023.

Hann segir bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga ekki hafa haft nein áhrif á ákvörðunina um að hætta við útgáfu skuldabréfa í mars og apríl.

„Þetta er bara rútínubréf frá eftirlitsnefndinni. Rekstrarniðurstaða sveitarfélaga síðustu tvö, þrjú ár tengist því beint að sú stefna var tekin af hálfu stjórnvalda að sveitarfélögin skyldu reka sig með halla og safna skuldum í gegnum faraldurinn. Þau voru hvött til fjárfestingar þrátt fyrir aukin útgjöld og vænt tekjufall.

Framlag stjórnvalda var í raun að ganga út frá því að sveitarfélögin myndu skila halla og þess vegna voru viðmið sveitastjórnarlaga tekin úr sambandi. Engu að síður er eftirlitsnefndin starfandi og sendir þessi bréf.“

Hallinn á málaflokki fatlaðs fólks skiptir mestu

Dagur segir hallann á málaflokki fatlaðs fólks skipta hvað mestu máli varðandi fjármál sveitarfélaganna, sem sé til umfjöllunar á sameiginlegum vettvangi ríkis og sveitarfélaga.

„Þar á að koma niðurstaða síðar í þessum mánuði miðað við tímaáætlun. Þó að það sé mikil verðbólga og alls konar ytri þættir sem hafa áhrif fjármál sveitarfélaga á Íslandi þá held ég að ég geti fullyrt að það er enginn einn þáttur sem er stærri varðandi fjárhag sveitarfélaga til næstu ára heldur en að ráða bót á því sem út af stendur varðandi málaflokk fatlaðs fólks.

Það eiga öll sveitarfélögin sameiginlegt. Öll á höfuðborgarsvæðinu og líka út um land eins og ályktanir sveitarfélaga hafa borið með sér á fjármálaráðstefnunni í haust og landsþingi sveitarfélaga.“

„Sunnan við skilyrðin“

Í bréfi eftirlitsnefndar er bent á að árið 2026 þurfi borgin sem og önnur sveitarfélög að uppfylla skilyrði nefndarinnar. Hvernig hyggst borgin uppfylla þau?

„Borgin er nú reyndar sunnan við skilyrðin sem finna má í lögum vegna þess að þau ná til samstæðunnar og við höfum verið að skila jákvæðri niðurstöðu af rekstri samstæðunnar öll þessi ár, líka þessi þungu ár og erum með lægri skuldaviðmið en velflest önnur sveitarfélög og öll af okkar stærðargráðu.

Þarna var verið að benda á að það hafi verið halli á A-hlutanum í gegnum faraldurinn,“ segir hann og bendir á að það byggi á viðmiðum sem eftirlitsnefndin hefur sett sér til viðbótar þeim sem eru í lögunum.

Til að takast á við stöðu efnahagsmála, rekstur og fjárfestingu til framtíðar, segir Dagur að borgin hafi sett fram fjármálastefnu og aðgerðaráætlun til næstu ára samhliða fjárhagsáætlun sinni í haust.

„Hluti af henni er að sækja á um leiðréttingu á framlögum út af málaflokki fatlaðs fólks. Það verður ekkert undan því vikist að það er risastór þáttur í þessu.“

Viltu meina að það sé skekkja á uppsetningu í bréfinu?

„Nei, nei, nei, nei, þetta er bara rútínubréf og því verður bara svarað,“ segir hann og ítrekar að viðmiðin séu umfram þau sem skilgreind eru í lögunum.

Bréfið fjallar um að A-hlutinn eigi að vera í lagi árið 2026 en hvergi er talað um samstæðuna.

„Það getur verið, það getur verið. Við erum bara með þetta bréf til meðferðar og því verður bara svarað,“ segir Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert