Veðurstofan spáir norðlægri átt í dag, víða golu eða kalda. Þungbúið verður á norðanverðu landinu, lágskýjað og dálítil rigning eða snjókoma. Á sunnanverðu landinu verður hins vegar bjartara yfir og þurrt að mestu. Spáð er hita á bilinu 0 til 8 stigum yfir daginn, mildast syðst á landinu.
Á höfuðborgarsvæðinu er spáð norðan 3 til 10 m/s í dag, bjart með köflum og hita á bilinu 4 til 7 stig yfir daginn. Hæg breytileg átt á morgun og skýjað að mestu síðdegis en hlýnar heldur.
Á morgun er spáð norðaustan kalda eða stinningskalda suðaustan til á landinu og rigningu á köflum, en í öðrum landshlutum verður hægur vindur og lengst af þurrt. Hiti 2 til 10 stig að deginum.