„Við teljum að núna sé tíminn kominn, og ekki eftir neinu að bíða. Ökumenn vöknuðu aðeins fyrir páska, en þó biðu margir eftir páskahretinu. Svo hefur verið brjálað að gera í dag,“ sagði Jóhann Jónsson hjá Dekkjahöllinni á Akureyri í gær, en þar var myndin tekin.
Mikið annríki er á dekkjaverkstæðunum þessa dagana, við að taka vetrardekkin undan ökutækjunum og setja sumardekkin á. Formlegur frestur til að aka um á nagladekkjum rennur út nk. laugardag, 15. apríl.
Eftir þann tíma fer að styttast í að laganna verðir sekti ökumenn með nagladekk á bílum sínum. Aðstæður eru þó metnar hverju sinni en snjór nær enn niður í byggð norðan- og austanlands. Hann er þó á undanhaldi og langtímaveðurspár benda til vætu og hlýinda síðustu daga vetrarins.
Dekkjahöllin rekur fjögur verkstæði, tvö í Reykjavík, eitt á Akureyri og eitt á Egilsstöðum.