Alls hafa tæplega 100 milljónir króna verið greiddar úr ríkissjóði undanfarin ár til framleiðslu á Áramótaskaupi RÚV. Ríkisútvarpið hefur síðustu átta ár falið sjálfstæðum framleiðslufyrirtækjum að halda utan um gerð skaupsins og hafa þeir fengið ákveðna upphæð til að spila úr.
Umræddir framleiðendur hafa aftur á móti getað sótt sér endurgreiðslu til íslenska ríkisins vegna laga um endurgreiðslur framleiðslukostnaðar og því hefur framleiðslan getað verið dýrari en ella. Sem kunnugt er fær RÚV sex milljarða króna af almannafé ár hvert auk tekna af auglýsingasölu. Dýrasti auglýsingatími ársins er einmitt í kringum umrætt Áramótaskaup.
Lögum samkvæmt eiga framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi kost á endurgreiðslum á allt að 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi og 35% ef skilyrði um afar stór verkefni eru uppfyllt. Það var fyrst árið 2015 sem framleiðslu á skaupinu var útvistað og endurgreiðsla sótt.
Framleiðslufyrirtækið Stórveldið fékk þá tæpar átta milljónir króna úr ríkissjóði. Reykjavík Studios fékk tæpar 11 milljónir fyrir skaupið 2016, Glass River tíu milljónir árið á eftir og sama fyrirtæki fékk svo 14 milljónir fyrir skaupið 2018. Republik framleiddi Áramótaskaupið þrjú ár í röð frá 2019-2021 og fékk samtals um 40 milljónir í endurgreiðslu á þeim árum. Framleiðslufyrirtækið S800 fékk svo tæpar 14 milljónir fyrir skaupið á síðasta ári.
Samtals eru þetta um 96 milljónir króna á átta ára tímabili.