Andrés Magnússon
„Miðað við núverandi rekstur myndi taka Reykjavíkurborg 90 ár að borga upp skuldir ef ekkert yrði framkvæmt,“ segir Eyþór Arnalds. „Ég hef ekki séð svona ljótar tölur,“ segir hann um síðasta 9 mánaða uppgjör borgarinnar frá í fyrra, en von er á nýju uppgjöri innan skamms.
„Það er ljóst að reksturinn er kominn í klessu,“ segir Eyþór um uppgjörið. „Þrátt fyrir að menn vissu að það væri verðbólga, þá eru útgjöldin áfram að aukast meira en tekjurnar. Afkoman er engin.“
Miðað við það muni taka 90 ár að borga skuldirnar upp, en þá aðeins að ekkert verði framkvæmt allan tímann. Raunin sé auðvitað sú að Reykjavíkurborg þurfi að standa í ýmsum framkvæmdum á ári hverju.
Eyþór bendir á að lausatök hafi einkennt allan rekstur hjá borginni og nefnir leikskólana sem dæmi. Það stóra verkefni sé alls ófjármagnað hvort heldur litið er til bygginga leikskóla eða mönnunar þeirra. Þar hafi þó verið lofað í tvo áratugi að 18 mánaða börn komist á leikskóla. Það muni reynast torsótt ef fjárhagur borgarsjóðs er í molum. Annað dæmi sé snjómoksturinn, sem hafi verið vanræktur í nafni sparnaðar, en sú þjónustuskerðing hafi komið hart niður á borgarbúum.
Markmiðið verði því að vera hagræðing, þar sem bæði megi ná fram sparnaði og gera betur. Af samanburði á starfsmannafjölda borgarinnar og nágrannabyggðum sjáist að borgin er með liðlega 20% fleiri starfsmenn á íbúa. Þar megi augljóslega ná fram auknu hagræði svo borgin njóti hagkvæmni stærðar sinnar.