Mjög skiptar skoðanir eru á frumvarpi Ingu Sæland og sex annarra þingmanna um að leyfa hunda- og kattahald í fjölbýlishúsum. Þetta kemur fram í umsögnum um frumvarpið þar sem lögð er til sú breyting á lögum um fjöleignarhús að hunda- og kattahald verði ekki háð samþykki annarra eigenda en í dag þarf samþykki 2/3 hluta íbúðareigenda til þess.
Félag ábyrgra hundaeigenda fagnar frumvarpinu og segir núverandi lög um fjöleignarhús hafa sett upp þröskuld fyrir efnaminna fólk til að eignast og halda hund „því eina tryggingin sem fólk hefur gagnvart því að halda hund í friði er búseta í sérbýli eins og lögin eru í dag“.
Bent er þó á í umsögn félagsins að þar sem dæmi eru um fólk með bráðaofnæmi fyrir hundum sé eðlilegt að gera öðrum íbúum fyrirvara áður en hundur kemur í hús þar sem er sameiginlegur inngangur eða stigagangur.
Félag íslenskra ofnæmis- og ónæmislækna leggst á hinn bóginn algjörlega gegn frumvarpinu og segir það skerða „verulega sjálfsögð réttindi fólks með astma og ofnæmi fyrr dýrum um að vera að óþörfu útsett á eigin heimili fyrir þeim ofnæmisvaka sem veldur þeim heilsutjóni“.
Í umsögn læknanna er bent á að á Íslandi eru um 6% fullorðinna og um 9% skólabarna með astma. Um fjórðungur fullorðinna og barna sé með ofnæmi en algengast sé ofnæmi fyrir grasi og fyrir köttum og hundum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.