„Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað og við höfum eðlilega áhyggjur af sumrinu,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), en frá áramótum hefur veruleg fjölgun orðið á innlögnum erlendra ferðamanna.
Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag hefur álag almennt verið mikið á sjúkrahúsinu á þessu ári. Hefur nýting sjúkrarúma verið vel yfir 100% alla daga.
Hildigunnur segir sjúkrahúsið hafa viðrað áhyggjur sínar við bæjaryfirvöld með komandi sumar, en stöðugt fleiri skemmtiferðaskip sækja Akureyri heim. Einnig hefur samtal átt sér stað við ferðaþjónustuaðila varðandi skipulag heilbrigðisstarfsemi á svæðinu á komandi sumri, þá með það fyrir augum að draga úr álagi á sjúkrahúsinu.
„En að sjálfsögðu verður bráðaþjónusta alltaf tryggð,“ segir Hildigunnur ennfremur við Morgunblaðið.