Dvelur ólöglega á landinu og grunaður um stunguárás

Árásin átti sér stað í Reykjanesbæ.
Árásin átti sér stað í Reykjanesbæ.

Landsréttur hefur staðfest tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um að hafa stungið annan mann í hendina aðfaranótt mánudags, eða á annan í páskum.

Í greinargerð lögreglunnar er atvikum lýst þannig að skömmu eftir miðnætti hafi henni verið tilkynnt um líkamsárás þar sem maður kvaðst hafa verið stunginn í hendi í Reykjanesbæ.

Sá sem varð fyrir stungunni, og önnur vitni, hafi í kjölfarið borið að viðkomandi maður hefði verið að verki.

„Hann hefði stungið ætlaðan brotaþola í hendi eftir að hafa hótað félaga brotaþola en einnig haft meðferðis hafnaboltakylfu,“ segir í atvikalýsingunni úr héraðsdómi, sem fylgir úrskurði Landsréttar.

Tekið er fram að við rannsókn málsins hafi komið í ljós að maðurinn, sem grunaður er um stunguna, dvelji ólöglega hér á landi. Honum hafi verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun 4. janúar á þessu ári.

Hann hafi þó ekki orðið við því að yfirgefa landið, „eins og honum beri að gera“.

Ítrekað komið við sögu lögreglu

Þess í stað hafi maðurinn í janúar sótt um dvalarleyfi sem aðstandandi Íslendings, en þeirri umsókn verið vísað frá.

„Í framhaldi af birtingu ákvörðunar um brottvísun hafi varnaraðila verið gert að sæta tilkynningaskyldu þrisvar í viku, sbr. 114. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Varnaraðili hafi hins vegar ekki sinnt tilkynningaskyldu dagana 13., 16. og 20. janúar 2023, 8., 15. og 22. febrúar 2023 og 1., 8. og 29. mars 2023,“ segir í úrskurðinum.

Stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi sömuleiðis ítrekað reynt að ná tali af manninum, í því skyni að undirbúa framkvæmd flutnings hans til annars lands, en ekki náð sambandi þrátt fyrir margar tilraunir.

„Auk framangreinds segir í greinargerð sóknaraðila að varnaraðili hafi ítrekað komið við sögu lögreglu allt frá árinu 2020 og eigi nokkur ólokin mál í refsivörslukerfinu, einkum vegna brota á lögum um útlendinga, fíkniefnalagabrota og ætlaðs peningaþvættis.“

Taki nokkra daga að flytja manninn út

Í kafla úrskurðarins yfir lagarök er tekið fram að lögregla vísi til þess að maðurinn dvelja hér ólöglega og hafi verið vísað á brott. Stoðdeild ríkislögreglustjóra vinni að því að framfylgja þeirri ákvörðun.

Fyrirséð sé að nokkra daga taki að flytja manninn af landi brott og því farið fram á gæsluvarðhald á grundvelli ákvæða laga um útlendinga.

Að mati lögreglu er þegar búið að fullreyna vægari úrræði. Nauðsynlegt að manninum verði með úrskurði dómsins gert að sæta gæsluvarðhaldi

Fram kemur að manninum hafi verið vísað brott af landinu með ákvörðun Útlendingastofnunar 15. desember 2022. Jafnframt hafi verið kveðið á um að honum væri bannað að koma aftur í tvö ár.

Hélt fram að gögn væru röng

„Varnaraðili hefur ekki orðið við því að framfylgja umræddri ákvörðun. Þá verður af gögnum málsins ráðið að varnaraðili hafi ekki sinnt þeirri tilkynningarskyldu sem honum var gert að sæta á grundvelli 114. gr. fyrrgreindra laga.

Loks verður ekki annað séð en að varnaraðili hafi gert lögreglu erfitt um vik að hafa samband við hann vegna hans mála. Fyrir liggur að Útlendingastofnun undirbýr nú ákvörðun um brottvísun varnaraðila frá landinu og er fyrirséð að sú aðgerð taki að minnsta kosti nokkra daga,“ segir í úrskurðinum.

Enn fremur er bent á að maðurinn hafi virt að vettugi tilkynningarskyldu sem honum hafi verið gert að sæta, „og hefur hann með engum hætti sýnt fram á að gögn þar að lútandi séu röng svo sem haldið var fram af hans hálfu við flutning málsins“.

Af þessum sökum skar dómurinn úr um að maðurinn skyldi hnepptur í gæsluvarðhald, þó ekki lengur en til kl. 16 mánudaginn 24. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert