„Þetta er alvarlegt inngrip en getur verið lífsbjargandi,“ segir Eyrún Thorstensen, hjúkrunarfræðingur geðþjónustu meðferðarsviðs Landspítalans (LSH), um nauðungarlyfjagjöf á spítalanum.
Fjallað er um nýja rannsókn á notkun fjögurra lyfja á geðdeildum Landspítalans á árunum 2014-2018 í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Af 4.053 þátttakendum fengu 400 þeirra nauðungarlyfjagjafir, eða tæp 10%. Heildarfjöldi nauðungarlyfjagjafa var 2.438 á rannsóknartímabilinu. Að meðaltali voru framkvæmdar 40,6 nauðungarlyfjagjafir á mánuði á tímabilinu.
Nauðungarlyfjagjöf er þegar sjúklingi eru gefin lyf gegn vilja hans og í sumum tilfellum er lyfjagjöf framkvæmd með því að sjúklingi er haldið með handafli eða hann fjötraður á meðan honum eru gefin lyf í vöðva í þeim tilgangi að róa hann, draga úr óæskilegri hegðun eða til að meðhöndla sjúkdómseinkenni eins og bráð geðrofseinkenni, geðhæð, spennu og æsing.
„Oft er fólk mjög örlynt og sefur ekki neitt en getur líka verið í geðrofi af ýmsum ástæðum.“
Þvinguð meðferð á geðdeildum hefur verið gagnrýnd víða um heim en Eyrún segir fyrstu niðurstöður benda til þess að staða Íslands sé nokkuð góð miðað við önnur lönd. Frekari rannsókna sé þó þörf.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.