Ekki eitthvað sem á geta gerst

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að það hafi verið „löngu …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að það hafi verið „löngu tímabært“ að skipta um stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir það mál þar sem Innheimtustofnun sveitarfélaga er gert að greiða fyrrum starfsmanni 19 milljónir króna vegna kyn­bund­ins launamun­ar afleitt og að það sé ekki eitthvað sem eigi að geta gerast.

Ráðherra segir í samtali við mbl.is að ríkisendurskoðendur hafi á sínum tíma verið fengnir til þess að gera stjórnsýsluúttekt á IS. „Það kom margt í ljós sem er ekki eins og það á að vera og við gripum til þess ráðs að skipta um stjórn og setja nýtt fólk yfir,“ segir hann en hann telur að það hafi verið löngu tímabært.

„Við erum núna með frumvarp í þinginu þar sem við erum að færa stofnunina yfir til ríkisins og færa innheimtuna til innheimtumanns sýslumanns,“ segir hann. „Þetta hefur verið gert með talsverðri upplýsingagjöf til starfsmannanna þegar þessar ákvarðanir voru teknar.“

Nauðsyn að stokka upp í fyrirkomulaginu

Í vikunni sagði Jón Ingvar Pálsson, fyrrverandi forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga í yfirlýsingu að ný stjórn hafi reynt, að und­ir­lagi Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) og innviðaráðuneyt­is­ins, að koma höggi á fyrri stjórn­end­ur stofnunarinnar með ýms­um bola­brögðum.

Spurður út í þessar ásakanir svarar ráðherra: „Ég get ekki tjáð mig það á nokkurn annan hátt en að vísa til úttektar ríkisendurskoðunar og nauðsynjar að stokka upp þetta fyrirkomulag og koma því í eðlilegan farveg.“ En í út­tektinni kemur fram að stjórnend­ur hafi gert tilraun­ir til þess að leyna upp­lýs­ing­um og gögn­um fyr­ir Ríkisendurskoðun og með því afvegaleiða úttekt á starfsemi stofnunar­inn­ar.

„Skel“ IS verður eftir í nokkur ár til viðbótar

„Við erum að vonast til að frumvarpið klárist núna í vor,“ segir hann. „Í frumvarpinu er talað um að sýslumaður fari strax að vinna með stofnuninni,“ segir Sigurður og hann bætir svo við að formleg yfirfærsla verði um næstu áramót.

„Hins vegar skiljum við eftir stofnun sem heitir IHS, Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem er þá skelin um gömlu innheimtustofnunina og það er bara til þess að takast á við önnur mál sem koma upp.“

Sú stofnun myndi þá sjá um mál á borð við það sem hér um ræðir, þó segist ráðherra ekki kannast við fleiri slík mál.

Hann segir því að horft sé til að stofnunin muni halda áfram starfsemi sinni í fjögur ár til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert