Fjögurra mánaða fangelsi fyrir gróf textaskilaboð

Maðurinn sendi meðal annars mynd af haglabyssu, sem hefur verið …
Maðurinn sendi meðal annars mynd af haglabyssu, sem hefur verið gerð upptæk. Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann í fjögurra mánaða fangelsi fyrir líflátshótanir og brot í nánu sambandi vegna textaskilaboða sem hann sendi í maí árið 2020. Er manninum gert að greiða samtals 750 þúsund krónur í miskabætur auk málskostnaðar.

Textaskilaboðin, sem hann sendi í gegn um Facebook, innihéldu meðal annars líflátshótanir í garð viðtakanda og þriggja annarra og ljósmynd af haglabyssu, sem samkvæmt úrskurðinum voru til þess fallin að vekja ótta um líf hans, heilbrigði og velferð.

„Ég mun drepa þig“ og „Svo ok. Ég er her ef einhver af ykkur í genginu hans A svo mikið sem hnerrar nálægt mér þá drep ég 4 af ykkur“ eru dæmi um textaskilaboð sem maðurinn er dæmdur fyrir.

„Ég hata þig meir en krabbamein“

Þá er maðurinn dæmdur fyrir brot í nánu sambandi og stórfelldar ærumeiðingar vegna skilaboða í svipuðum dúr á sama tímabili. Í skilaboðunum, sem eru 37 talsins, kallar hann konu, sem hann átti í sambandi við, öllum illum nöfnum og sýnir háttsemi sem mætti telja sem líflátshótun.

„Shit ok þú ert orðin druslumamma“ og „Svo þú getur troðið góðum samskiptum upp í rassgatið á næsta fífli sem fer í samband með þér. Ég hata þig meir en krabbamein svikaratussa“, eru dæmi um skilaboð sem maðurinn sendi, sem voru talin þess fallin að ógna lífi, heilsu og velferð konunnar á alvarlegan hátt.

Var manninum einnig gert að greiða manninum 300 þúsund krónur og konunni 450 þúsund krónur í miskabætur, auk vaxta og málskostnaðs. Þá var haglabyssa mannsins, af gerðinni Remington 870, gerð upptæk.

Maðurinn, sem hefur í þrígang áður gerst brotlegur við lög, var sem segir dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, en haldi hann skilorði í tvö ár fellur refsingin niður.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert