Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) skrifaði undir nýjan kjarasamning við ríkið fyrir hádegi í gær.
Í tilkynningu á vef félagsins segir að um sé að ræða skammtímasamning til tólf mánaða sem gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024.
„Samningurinn er í takt við þær áherslur sem Fíh lagði upp með við upphaf viðræðna og tryggir launahækkanir og kjarabætur fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að samningurinn feli í sér ákveðnar breytingar á vaktaálagi og vaktahvata auk verkáætlunar um þau atriði sem verða tekin til sérstakrar skoðunar á samningstímanum svo sem vinnutíma í dagvinnu og vaktavinnu, endurskoðun veikindakafla og fleira.
Samningurinn verður nú kynntur og hefst atkvæðagreiðsla um hann á hádegi á laugardag og lýkur á hádegi mánudaginn 24. apríl.