Lilja notar gervigreind í ráðherrastörfum

Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, viðskipta og menningar, segist sjálf hafa …
Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, viðskipta og menningar, segist sjálf hafa notað gervigreind við störf sín. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segist hafa nýtt sér gervigreind annað slagið við störf sín sem ráðherra. „Ég nota þetta sem hjálpartæki,“ segir hún í samtali við mbl.is. Þá hafi hún til dæmis nýtt sér tæknina til þess að bera saman kenningar mismunandi hagfræðinga í fljótu bragði.

Á ríkisstjórnarfundi í gær ræddi hún um öryggi, afnot og réttindamál hvað varða gervigreind og einkum það samstarf sem ríkir á milli íslenskra stjórnvalda og OpenAI um vinnu að spjallmenninu GPT-4.

Hún kveðst vera fullmeðvituð um þær áskoranir og hættur sem fylgja hraðri þróun gervigreindar og sé stöðugt að fylgjast með og taka mið af því sem er að gerast annarsstaðar.

Vakandi yfir persónuvernd

„Við sjáum til að mynda sum ríki hafa sett ákveðnar hömlur á þróun gervigreindar,“ segir hún. „En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ef ríkið ætlar að vera samkeppnishæft þá sé brýnt að fólk sé fært í því að nýta tæknina,“ segir hún en bætir við að

Á Ítalíu hefur ChatGPT verið bannað tímabundið vegna áhyggja um persónuverndarbrot og takmarkaðs gagnsæis á upplýsingaöflun OpenAI. Nú þegar verið er að fóðra gervigreindina með ýmsu íslensku efni og eru ýmsar áhyggjur sem geta vaknað hvað varðar persónuvernd.

„Aðstandendur þessa verkefnis eru meðvitaðir um persónuvernd og höfundarréttarsjónarmið,“ segir Lilja. Hún tekur sem dæmi Árnastofnun sem hefur nú eytt út öllum nöfnum í dómum, sem birtir eru á vefsíðum dómstóla hér á landi, áður en gervigreindin fær not af þeim upplýsingum til þess að stuðla að persónuvernd.

Hún segir að það sé mikilvægt að „við séum alltaf að tala um þetta“, auk þess sé það mikilvægt að gætt sé að persónuvernd og að ekki sé verið að nýta tæknina í annarlegum tilgangi.

AFP

Nú reyni meira á gagnrýna hugsun

Lilja segir að tækninni fylgi miklar breytingar og að nú reyni miklu meira á gagnrýna hugsun vegna gervigreindar. „Þú getur ekki tekið allt á svokölluðu nafnvirði. Þú þarft líka að kanna upprunan og hvaðan þetta kemur,“ segir hún. „Nú reynir meira á þekkingu.“

„Það eru margir sem telja að þekking sé núna einskisvirði en ég segi að það sé akkúrat öfugt. Því til þess að nýta þetta þarf maður að vera með gagnrýna hugsun.“

Ýmsar áhyggjur hafa verið í lofti vegna áhrifa sem tæknin getur haft á menntakerfið. Margir hafa lýst yfir áhyggjum sínum á því að nemendur í skólum geti notað tæknina til þess að svindla en Lilja heldur öðru fram.

„Sumir halda að þetta sé gjörbylting í menntakerfinu en ég segi frekar að þetta setji auknar kröfur á það.“ segir hún. „Þú getur ekki bara tekið það sem þú færð jafnvel þó hún sé sniðug að svara og skrifi flotta íslensku. Þú þarft að fara yfir þetta.“

Notar GPT sem hjálpartæki

„Ég nota þetta til þess að fletta upp hlutum og gera samanburð á kenningum. Ég hef til dæmis mikinn áhuga á því sem tengist sagnfræði og efnahagsmálum,“ segir hún. „En ég læt það nú ekki greina það fyrir mig,“ bætir hún við.

Hún segist til dæmis hafa rosalegan áhuga á nýrri bók frá hagfræðingnum John Cochrane um ríkisfjármál og væntingastjórnun. „Þá velti ég því fyrir mér hverjir aðrir hafa átt kenningar um ríkisfjármál og verðbólgu,“ segir hún. „Og þá get ég fengið yfirlit um alla sem fjölluðu um þetta og svo haldið áfram.“

Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir 2 milljörðum króna í máltækni

„Við erum að fara í svokallaða máltækni tvö,“ segir Lilja. „Við erum tryggja það að íslenskan verði ennþá notuð í þessum tæknirisum eins og OpenAI, Google og Amazon.“

„Notendur gagnanna eru til dæmis frumkvöðlar, nýsköpunarfyrirtæki, málfræðingar, talmeinafræðingar og sérfræðingar í máltækni, innanlands og erlendis,“ segir Lilja og bætir við að tæknin væri í svokölluðum opnum leyfum, sem gerir þriðju aðilum kleift að nýta hana í smíðir á lausnum fyrir neytendamál.

„Við erum að horfa til Apple og fleiri aðila og erum að reyna koma íslenskunni þar að auk þess að gera þetta eins notendavænt og hugsast getur,“ segir hún og bætir við að hún leggi áherslu á að íslensk fyrirtæki geti nýtt tæknina.

„Og ég er að leggja áherslu að afurðir þessarar máltækniáætlunar séu opnar og allir geti samnýtt þær við þróun á hugbúnaði.“

Hún segir að í fjármálaáætlun ríkisins séu tæpir tveir milljarðar sem verða notaðir í viðhald, að tryggja nýja staði þar sem íslenskan verður notuð á stafrænu formi, þó svo að þeir hafi ekki verið kynntir á kynningarfundi nýrrar fjármálaáætlunarinnar.

Íslenska „risastórt tungumál“

Lilja segist þykja vænt um það hversu vel þjóðin hafi tekið í samstarf Íslands og OpenAi og að landsmenn líti til gervigreindar sem aðstoðar við þau störf sem eru unnin.

„Þetta er áratugavinna sem er að skila sér í þessum árangri,“ segir hún og minnist á baráttu Rögnvalds Ólafssonar til að koma íslenska stafrófinu fyrir í tölvur en viðtal var við hann í SunnudagsMogganum. 

„Þó að margir tali ekki íslensku þá er íslenska risastórt tungumál,“ segir Lilja. „Bókmenntaarfurinn er ekki bara arfurinn okkar heldur heimsins alls.“

„Tungumál eru í svo mikilli samkeppni við enskuna. Enskan er augljóslega það tungumál sem ræður ríkjum, m.a. vegna þess að í Bandaríkjunum er töluð enska. Og ég er á því að ef þjóðir huga ekki að menningarlegum arfi sínum sem er í tungumálinu geta þau glatað uppruna sínum og hætt að vera þjóðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert