Lundinn er loks kominn til Borgarfjarðar eystra eftir veturinn.
Frá þessu greinir héraðsmiðillinn Austurfrétt, en hjónin Elísabet Ólafsdóttir og Björn Aðalsteinsson komu auga á fuglana í gærkvöldi.
Ferðaskrifstofan og hjólaleigan Fjord Bikes deilir meðfylgjandi myndskeiði af lundunum.
Austurfrétt hefur eftir Birni að um klukkan átta í gærkvöldi hafi enginn lundi verið kominn í Hafnarhólmann.
„Þá sátu þeir úti á sjó. Svo koma þeir í hringi yfir og láta sig detta niður og allt fyllist á augnabliki. Eftir átta mánuði á sjó þá kemur hann oft um þetta leyti árs,” segir Björn.
Hér að neðan má sjá beint streymi úr vefmyndavél í hólmanum, en í björtu má ef til vill sjá prófastana finna sér holu fyrir sumarið.