Vorið 2021 lagði Ari Trausti Guðmundsson, þá þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, fyrir umhverfis- og samgöngunefnd hugmyndir sínar um mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár.
Ari Trausti stýrði kynningarfundi sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stóð fyrir í Hörpu í dag. Tilefnið var skýrsla starfshóps um málefnið.
Hvernig sér upphafsmaður verkefnisins fyrir sér framhaldið?
„Þetta verkefni er mjög stórt og verður viðvarandi þó að í skýrslunni sé rætt um næstu fimm árin. Þetta hverfur ekki heldur í raun og veru eykst vegna loftlagsbreytinga, stækkunar samfélagsins, breyttra búhátta og svo framvegis,“ segir Ari Trausti í samtali við mbl.is.
Ari segir mikilvægt að allar ríkisstjórnir taki þetta inn í sína málefnasamninga og svo þurfi að ganga á þessa verkefnalista en að allt sé þetta meira og minna háð fjármagni.
„Annars vegar þarf að tryggja að langtímafjárhagsáætlun ríkisins og fjárlög hverju sinni endurspegli það sem þarf að ráðast í.
Það þarf að vera náið samráð milli allra ráðuneyta og forsætisráðuneytið þarf að veita málinu forstöðu.
Svo þarf að finna leiðir til að afla fjármagns umfram þær leiðir sem notaðar eru í dag.“
Ari segist sjá fyrir sér að til verði einhvers konar náttúruvárráð og svo náttúruvársjóður til að rannsóknir og tækninýjungar verði ekki eingöngu háðar samkeppnissjóðum eða fjármagni sem er að koma úr erlendum sjóðum.
Hann segir hafa verið mikið misgengi athygli innan málaflokksins.
„Sumir málaflokkar innan náttúruvár hafa fengið litla athygli og aðrir mikla. Það þarf að breyta því. Ég öfunda ekki þá sem þurfa að vinna úr þessari skýrslu en hins vegar þarf það að gerast.
Öflugasti sjóðurinn er ofanflóðasjóður og þegar eldvirknin fór í gang upp á nýtt og í tilviki Holuhraunsgoss til dæmis, þá var verið að klípa þaðan og búa til einhvers konar sérfjárveitingu þaðan og það gengur ekki að vinna þannig.“
Ari segir þurfa að forgangsraða ofanflóðum, jarðskjálftum og eldgosum sem mikilvægustu undirflokkunum því hægu breytingarnar; óveður og hækkun sjávarborðs sé eitthvað sem sé meira inn í framtíðinni en muni framkvæma mikla náttúruvá þegar fram í sækir.
Þá liggur beinast við að spyrja upphafsmanninn hvernig vegferðin hófst?
„Þegar fór að halla undir það að ég yrði ekki lengur á þingi þá ákvað ég að leggja fyrir þingflokkinn fyrst og að þetta yrði ákveðið forgangsmál þar og að þingmaður legði fram frumvarp þar að lútandi.
Þingmannafrumvörp eru erfið og ná yfirleitt ekki langt svo niðurstaðan var að leggja málið fyrir umhverfis- og samgöngunefnd. Ég samdi drög að ályktun og greinargerð og það var algjör áhugi innan nefndarinnar. Málið gekk sinn vanagang, gekk fljótt og hratt fyrir sig og flaug svo í gegnum þingið,“ segir Ari.
Það liggur fyrir að fara eigi í stefnumótunarvinnu í kjölfar útgáfu skýrslunnar og mörg verkefni eru framundan. Ari segist ekki eiga von á að koma frekar að vinnunni nema hann fái einhver sérstök verkefni í hendurnar.
„Það er eitt sem ég vil þó nefna og það er almenningsfræðsla. Ég hef stundað hana bæði sem kennari en ég hef einnig lagt mikla áherslu á sjónvarpsefni, bækur og fræðslu til almennings og til sveitarstjórnarmanna og hvað annað.
Það er auðvitað hlutur sem skiptir miklu máli vegna þess að bæði er fræðslan góð þar sem fólk veit meira hverju það á von en það myndar einnig þrýsting á stjórnvöld þegar almenningur veit mikið um málefnið.
Ég mun halda því áfram en ég sé ekki fyrir mér að ég verði í sérstökum embættum eða verkefnum í þessu enda kominn á þann aldur að ég er farinn að hugsa um ýmislegt annað,“ segir Ari Trausti að lokum.