„Samningar hafa verið gerðir af núverandi stjórn þar sem tveimur lögfræðingum eru greiddar sérstakar mánaðarlegar greiðslur umfram aðra. Um karlkyns lögfræðing er að ræða annars vegar og kvenkyns hins vegar.“
Þetta segir Jón Ingvar Pálsson, fyrrverandi forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga, í framhaldi af viðtali mbl.is við Jón Pál Hreinsson, stjórnarmann stofnunarinnar. Þar sagði Jón Páll enga svokallaða „skúffusamninga“ viðgangast hjá stofnuninni.
Sama dag sendi Jón Ingvar frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist hafa verið gerður að blóraböggli í máli þar sem stofnunin var dæmd til að greiða um 19 milljónir króna vegna brota á jafnréttislögum. Jón Ingvar hefur stefnt stjórn Innheimtustofnunar fyrir dóm þar sem hann krefst skaðabóta.
„Jón Páll veit ekki frekar en ég hvað „skúffusamningar“ eru, en við erum sammála um að það hljóti að vera einhvers konar mismunur á greiðslum til aðila í sömu stöðu,“ segir Jón Ingvar.
„Nú veit ég ekki hvort Jón Páll viti kannski ekki mikið um rekstur stofnunarinnar þrátt fyrir stjórnarsetu með göfugum markmiðum og fjálglegar yfirlýsingar, eða hafi e.t.v. verið blekktur?"
Jón Ingvar bætir við að eftir að lögfræðingurinn sem höfðaði mál gegn stofnuninni vegna kynbundins launamunar lét af störfum hafi annar kvenkyns lögfræðingur verið ráðinn þangað á sama launataxta og sú fyrri.
„Væntanlega hefur það verið gert þegar fyrir lá að stjórn taldi sig vita að sá launataxti stæðist ekki launamun milli kven- og karlkyns lögfræðinga stofnunarinnar. Að minnsta kosti lágu allar upplýsingar þar að lútandi fyrir löngu fyrir þann tíma,“ segir hann.
„Ef þetta eru vinnubrögð stjórnar, þá fer lítið fyrir sjálfgefnum yfirlýsingum þeirra um eigið ágæti og vandaða stjórnarhætti.“
Jón Páll sagði í samtalinu við mbl.is ekki hafa áhyggjur af stöðu mála hjá stofnuninni því núverandi forstjóri Innheimtustofnunar, Ómar Valdimarsson, fyrrverandi forstjóri Samkaupa, hefði mikla reynslu af stjórnunarrekstri.
„Er það vel, enda hlýtur margra ára reynsla úr kaupfélaginu að reynast vel í lögfræðilegri vanskilainnheimtu stofnunarinnar,“ segir Jón Ingvar.