Sjónvarpskonan Hugrún Halldórsdóttir hefur stefnt myndatökumanni og samstarfsmanni vegna deilna er snúa að greiðslum í tengslum við þáttagerð um garðyrkju á Sjónvarpi Símans.
Fyrirtaka i málinu er á dagskrá hjá Héraðsdómi Reykjavíkur þann 19. apríl næstkomandi.
Hugrún hefur áralanga reynslu af þátta- og sjónvarpsgerð fyrir Stöð 2 og Sjónvarp Símans. Auk þess hefur hún starfað á Morgunblaðinu, fréttum Stöðvar 2, stýrt Íslandi í dag og Bítinu á Bylgjunni ásamt því að sinna kynningarmálum.
Málið sem fer fyrir héraðsdóm á rætur sínar að rekja til þátta er bera nafnið Ræktum garðinn sem er þrettán þátta röð um garðyrkju á Íslandi sem sýndir voru á Sjónvarpi Símans.