Þrýstigeymirinn sem sprakk í bíl við bensínstöð Olís í Álfheimum í febrúar var verulega tærður. Skerti það þrýstingsþol hans mikið sem olli sprengingunni. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa sem gaf út skýrslu um atvikið í dag.
Sprengingin varð hinn 13. febrúar.
Þrýstigeymirinn var undir Toyota Land Cruiser tvíorkubifreið sem gengur fyrir dísil og metan. Var hann nýskráður árið 2011. Var bílnum breytt í metanbíl seinna og fór síðast í skoðun í apríl 2022. Var hann því með gilda skoðun.
Í atvikalýsingu segir að einni mínútu og 10 sekúndum eftir að ökumaður bílsins hóf að dæla á hann metani hafi orðið mikil sprenging. Bifreiðin hafi lyfst upp að aftan og ökumaðurinn,, sem stóð við vinstra afturhorn hennar,. kastaðist aftur á bak.
Bíllinn skemmdist mikið sem og tvær aðrar bifreiðar. Í skýrslunni segir að mikil mildi sé að engin hafi setið inni í bifreiðinni og að ökumaður og annað fólk sem var nálægt hafi ekki slasast alvarlega.
Niðurstaða rannsóknarinnar er að dælubúnaður bensínstöðvarinnar hafi verið í lagi og engin bilun fannst í honum sem gæti skýrt orsök sprengingarinnar.
Í orsakagreiningu segir að ekki hafi verið gerðar athugasemdir í síðustu skoðun við ástand geymanna. Þá hafi viðhaldi eldsneytiskerfisins verið ábótavant. Einnig er tekið fram að hálkuvarnarefni hafi hraðað tæringu þrýstigeymisins því hann var óvarinn fyrir vatni og vindum undir bifreiðinni.
Geymarnir, sem voru tveir undir bílum, voru úr stáli. Mikil tæring var á yfirborði þeirra og merkingar voru ólæsilegar. Slípa þurfti ryðið niður svo hægt væri að lesa í merkingarnar. Endingartími var uppgefinn 20 ár, eða til ágúst 2031.
Stálið við rifuna á geyminum var efnagreint og mældist verulegt magn af klór og einnig natríum sem eru efni sem hraða tæringu verulega í raka. Klór og natríum eru innihaldsefni í því salti sem að jafnaði er notað í hálkuvörnum á vegum. Svæðið í kringum rifuna, sem var langsum eftir geyminum, var verulega tært. Er talið sennilegt að óhreinindi hafi legið ofan á geyminum sem svo hafi safnað í sig raka og salti.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til eigenda og notenda bifreiða sem búnar eru metan eldsneytiskerfi að láta yfirfara þrýstigeyma og skipta þeim út ef tæring er farin að myndast á þeim.
Enn fremur beinir nefndin þeirri tillögu til Samgöngustofu að yfirfara skoðunarhandbók ökutækja og verklag á skoðunarstofum við skoðun á þrýstigeymum ökutækja. Jafnframt að upplýsa eigendur slíkra ökutækja um þessa hættu.