Grunur leikur á um að eldurinn sem varð í húsnæði á Funahöfða í byrjun mánaðarins hafi kviknað út frá raftæki sem var inni í einu herbergjanna.
Rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu bíður eftir frekari niðurstöðum frá tæknideild lögreglunnar.
Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is skömmu eftir eldsvoðann að ekki hefði legið fyrir leyfi til búsetu í húsnæðinu. Þrátt fyrir það voru herbergi þar leigð út.
Spurður hvort eigendurnir séu með stöðu sakborninga segir Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, málið ekki komið það stig. Ekki hafi verið teknar skýrslur af eigendunum og beðið sé eftir frekari niðurstöðum frá tæknideild lögreglunnar.
Töluvert tjón varð á herberginu þar sem eldurinn kom upp, auk þess sem reykskemmdir urðu annars staðar.