„Við Sigurþóra stofnuðum Bergið 17. september 2018 í minningu Bergs Snæs sonar hennar,“ segir Sigrún Sigurðardóttir, dósent og stjórnarmaður í Berginu headspace, stuðnings- og ráðgjafasetri fyrir ungt fólk, og vísar þar til Sigurþóru Bergsdóttur framkvæmdastjóra.
Bergið stendur á morgun, föstudag, ásamt norrænum samstarfsaðilum fyrir ráðstefnunni Reset welfare í Grósku í Vatnsmýri þar sem norrænir leiðtogar koma saman og ræða hvernig bregðast megi við þeim mikla vanda sem ungmenni standi frammi fyrir á vettvangi geðheilbrigðis.
Poul Nyrup Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, verður meðal gesta ráðstefnunnar en hann er einn stofnenda samtakanna Det Sociale Netværk sem segja má að sé burðarás Headspace-samtakanna sem styðja ungt fólk í vanda.
„Bergur Snær tók líf sitt eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu manns sem fór víða,“ segir Sigrún frá og enn fremur frá því að sá hörmulegi atburður hafi orðið kveikjan að stofnun Bergsins á sínum tíma.
„Til okkar hafa komið yfir þúsund ungmenni síðan Bergið opnaði og nú hefur verið mikil aukning og við fjölgað í ráðgjafahópi okkar,“ heldur hún áfram, en Bergið beitir svokallaðri áfallamiðaðri nálgun. „Ekki þarf að fá tilvísun eða vera með skilgreindar greiningar til að fá ráðgjöf í Berginu. Eina krafan er að viðkomandi vilji koma til okkar. Við spyrjum um erfiða reynslu í æsku og byggjum þá á ACE-rannsóknum,“ segir Sigrún.
Með ACE á hún við „Adverse Childhood Experience“ sem þýða mætti sem skaðlega eða hamlandi reynslu í æsku. Þær rannsóknir sem falla undir hugtakið hófust árið 1995 í samstarfi Kaiser Permanente-heilsugæslunnar í San Diego í Kaliforníu og Miðstöðvar sjúkdómavarna og -forvarna í Atlanta í Georgíu.
Niðurstöður þessarar fyrstu ACE-rannsóknar voru í stuttu máli að skaðleg upplifun í æsku væri mun algengari en talið hefði verið, um tveir þriðju hlutar Bandaríkjamanna hefðu gengið í gegnum minnst eina slíka og um fjórðungur þrjár eða fleiri. Sterk fylgni væri milli fjölda upplifana og ýmissa kvilla og flokka áhættuhegðunar síðar í lífinu, svo sem hjartasjúkdóma, sykursýki, offitu, þunglyndis, vímuefnanotkunar, reykinga, námsörðugleika, vinnufjarvista og að lokum dauða fyrir aldur fram.
Sigrún á orðið aftur: „Þetta eru mjög stórar rannsóknir og þær sýna svo ekki verður um villst að fjöldi erfiðra upplifana í æsku hefur áhrif á heilsufar og vandamál síðar á ævinni. Þetta eru svokallaðir ACE-listar, tólf spurningar sem eru lagðar fyrir fólk og það svarar því hvort það hafi lent í ákveðnum atburði fyrir 18 ára aldur. Þessa lista leggjum við fyrir fólkið sem til okkar leitar,“ útskýrir stjórnarmaðurinn.
Almennt í kerfinu sé alltaf verið að slökkva elda. Í Berginu sé hins vegar verið að koma í veg fyrir að þessir eldar kvikni. „Við spyrjum hvað hafi komið fyrir og hvers vegna fólki líði illa, ekki hvaða greiningar það hafi fengið. Í kerfinu hér á landi í dag er alltaf verið að horfa á afleiðingarnar, í stað þess að horfa á hvað gerðist, krakkar lenda í alls konar atburðum og vandamálum sem hafa gífurleg áhrif á þeirra líf. Við erum til dæmis að horfa á fjórtán-fimmtán ára krakka í dag sem eru krakkar sem fæðast í kreppunni,“ segir Sigrún og vísar til bankahrunsins haustið 2008 og eftirmála þess í íslensku þjóðfélagi.
Hrunið hafi verið gríðarlegt áfall fyrir þjóðina og þá ekki síst fyrir börn hennar, fólkið sem fæddist í hruninu og á sínar fyrstu minningar í hruninu og upp úr því. „Allar rannsóknir sýna að áföll á borð við þetta hafa áhrif síðar á ævinni. Við erum með krakka sem fæðast í hruninu og eru svo unglingar í Covid og lenda aftur í áfalli þar. Þessir krakkar eru með áfallasögu og auðvitað líður þeim ekki vel,“ segir Sigrún og leggur ríka áherslu á orð sín.
Hvað þá með börn fædd á árunum fyrir hrun sem eiga minningar frá um það bil fyrstu barnaskólaárum í hruninu?
Sigrún kveður þann hóp vissulega tilheyra áfallahópnum auk þess sem það sé svo sá hópur sem missir nánast af upphafi framhaldsskóla vegna heimsfaraldursins – Sigrún á sjálf dóttur sem fædd er 2005 og því 18 ára nú og hefur því staðið nærri því sem nýir framhaldsskólanemar máttu þola nú allra síðustu ár.
„Auðvitað þurfum við að efla foreldra til að standa sig í sínu hlutverki, en það eru svo margir foreldrar sem hafa bara ekki burði til að vera til staðar fyrir börnin sín. Það er alkóhólismi og alls konar geðræn vandamál sem hægt er að nefna sem dæmi um vanda þar. Við verðum að vera með utanumhald annars staðar frá fyrir þessa krakka sem fá ekki stuðning heima,“ segir Sigrún og þar liggi einmitt þungamiðja hlutverks Bergsins.
Fyrir Sigurþóru hafi vakað að búa til úrræði sem Bergur Snær sonur hennar naut ekki þrátt fyrir að hafa leitað aðstoðar víða í kerfinu.
„Við bjóðum þetta svokallaða lágþröskuldaúrræði þar sem er stuttur biðlisti og kostar ekkert fyrir krakkana að koma. Þú getur bara komið inn af götunni, þú þarft ekki að bíða í tvö ár eftir að komast í eitthvert ADHD-teymi eða inn á einhvern stað. Það þurfa ekki öll ungmenni meðferð, sum þurfa bara einhvern til að tala við, þau þurfa hlustun og skilning,“ segir Sigrún.
Þetta bjóði Bergið upp á, unga fólkið geti þar komið inn og hitt eina fullorðna manneskju sem það getur treyst. Oft nægi þetta til að snúa hlutum til betri vegar en nægi það ekki hafi Bergið aðgang að frekari úrræðum. „En þarna geta allir byrjað,“ segir hún.
Sigrún telur stóran hluta íslenska kerfisins byrja á öfugum enda, á greiningum sem kalli á biðlista áður en þær liggja fyrir. „Svo á að fara að vinna með fólki þegar það er komið með einhverjar greiningar og þá eru liðin mörg ár en hugsanlega hefði verið nóg ef unglingurinn hefði fengið einhvern til að ræða við strax, án þess að þurfa að bíða eftir öllum formlegheitunum,“ segir Sigrún Sigurðardóttir, stjórnarmaður Bergsins, að lokum.
Ráðstefna Bergsins og samstarfsaðila þess í Grósku á morgun stendur allan daginn, frá 9 til 16, og munu ráðstefnugestir flytja fjölda erinda auk þess að halda pallborðsumræður. Meðal þeirra sem taka til máls eru Poul Nyrup Rasmussen, sem fyrr segir, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Árni Páll Árnason, fyrrverandi félagsmálaráðherra, Gitte Lillelund Bech frá viðskiptaráði Danmerkur, Jon Fabritius frá Headspace í Noregi og fleiri.