Hátt í tvö þúsund lítrar af málningu fóru á veginn við hringtorg í Mosfellsbæ þegar farmur féll af flutningabíl sem ók þar um á sjöunda tímanum í kvöld.
Hreinsunarstarf stendur yfir en ljóst er að það mun taka nokkurn tíma. Samkvæmt slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er um að ræða hvíta málningu.
Vegagerðin, hreinsitæknar, tryggingafélög, og heilbrigðiseftirlit voru kölluð til á staðinn auk lögreglu og slökkviliðs.