Borgarráð samþykkti í gær að gera skuli aðgerðaráætlun í öryggismálum sundlauga. Þá verði aðgerðaráætlunin gerð í nafni Guðna Péturs Guðnasonar sem lést í Sundhöll Reykjavíkur árið 2021. Dánardagur Guðna, 21. janúar verður einnig tengdur árlegri vitundarvakningu í þessum efnum.
„Þann 21. janúar 2021 lést ungur maður, Guðni Pétur Guðnason, stuðningsfulltrúi á velferðarsviði, í Sundhöll Reykjavíkur. Guðni Pétur var í vinnunni, í sundi með skjólstæðingi sínum sem bjó í búsetukjarnanum að Flókagötu. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafði atvikið í Sundhöll Reykjavíkur til rannsóknar. Hún leiddi í ljós að illa sást í botn laugarinnar í dýpri enda hennar þar sem viðkomandi fannst,“ segir í greinargerð borgarstjóra vegna aðgerðaráætlunar.
Undirbúningi vegna áætlunarinnar var hrint af stað eftir að borgarstjóri fundaði með foreldrum Guðna eftir andlát hans. Kröfur foreldra Guðna, Guðna Heiðars Guðnasonar og Sigrúnar Drífu Annieardóttur voru á þá leið að úttekt skyldi gera á öryggismálum í sundlaugum, farið verði í umfangsmeiri aðgerðir heldur en áður hefur verið, úrbótaáætlun verði gerð í nafni Guðna og að eitthvað minningartengt skuli gera með heimilis- og starfsfólki á Flókagötu.
Öryggisstjóra Reykjavíkurborgar hefur verið falið að sjá um eftirlit með innleiðingu aðgerðanna og á henni að vera lokið vorið 2026.
Aðgerðaráætlunin er margþætt en til dæmis verður farið yfir verklagsreglur um laugavörslu, gæði og virkni eftirlitsmyndavélakerfa skoðuð og að reglubundin úttekt á öryggismálum fari fram. Þá verði þróunarverkefni sett af stað sem geri þeim gestum sem þurfa, kleift að notast við „Notendaborið aðvörunarkerfi vegna drukknunar” auk þess sem unnið verði að samræmdu atvikaskráningarkerfi.
Frekari upplýsingar um aðgerðirnar má sjá með því að smella hér.