Hagræðing í borginni nauðsynleg

Reykjavíkurborg þarf ekki að lenda í greiðsluþroti ef gripið er til skipulegra hagræðingaraðgerða, sem miða að því að draga úr rekstrarkostnaði án þess að til verulegrar þjónustuskerðinga komið, segir Eyþór Arnalds, fv. oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Það gerist hins vegar aðeins ef gerð er víðtæk áætlun um hagræðingu í rekstri borgarinnar, sem fjármálamörkuðum þætti trúverðug. Þá væri ekki ómögulegt að leita fyrirgreiðslu þangað, endurskipuleggja skuldir borgarinnar og þar fram eftir götum.

„Það að fara í þriðja bankann og fá þriðju yfirdráttarlínuna er ekki að fara að bjarga þessu,“ segir Eyþór, en hann kom til viðtals um fjárhagsvandræði sveitarfélaga í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins á netinu sem opið er öllum áskrifendum.

„Það eina sem dugar er að koma með raunhæfa áætlun um að hverfa af þessari braut, þar sem reksturinn er ekki sjálfbær. Það er svo einfalt.“ segir Eyþór. „Um leið og það er, þá breytist málið.“

Ábyrgðin er stjórnmálamanna

Eyþór ítrekar að ekki sé við fjármálasvið borgarinnar að sakast um fjárhagsvandræði Reykjavíkur, lýkur raunar nokkru lofsorði á það. „Upplýsingagjöfin frá því er mjög góð, það er mikið til af tölum og þau benda á hætturnar. Ábyrgðin er ekki þeirra,“ segir hann.

„Ábyrgðin er stjórnmálamanna, sem taka ákvarðanir um að þenja út báknið hvernig sem viðrar.“

Hann segir meirihlutann í borginni hafa bætt í alls staðar og hvergi slegið af. Viðreisn hafi raunar boðað að skuldir ætti að greiða niður í góðæri, en það hafi gleymst.

Spurður hvort það kalli ekki á óvinsælan niðurskurð bendir Eyþór á að ekki sé sama hvernig farið sé að því. Auðvelt sé að skerða þjónustuna og spara þannig, en það sé ekki raunverulegur sparnaður heldur sé þá verið að draga úr umsvifum.

Hagræðing er lykillinn

„Það sem þarf að gera er að hafa þjónustuna jafngóða, jafnvel betri, og hagræða um leið. Og það er kúnst.“ Hann nefnir til dæmis lokunum sundlauga á helgidögum, þegar fólk eigi loksins frí, hafi í för með sér litla krónutölulækkun en sé helst til þess fallið að vekja gremju fólks.

Vel sé hægt að hagræða í rekstri, líkt og velflest fyrirtæki hafi þurft að gera í gegnum þrengingar af ýmsu tagi, og það þurfi sveitarfélög einnig að temja sér.

„Að halda uppi þjónustunni, skerða hana ekki, bæta hana, en hagræða,“ segir Eyþór. „Það er ekki auðvelt, en það er hægt.“

Horfa má á allt viðtalið í Dagmálum hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert