„Maður með ístru og danskt útlit“

Gísli Tryggvason við málflutning í danska sendiráðinu í Reykjavík í …
Gísli Tryggvason við málflutning í danska sendiráðinu í Reykjavík í hraðakstursmáli Íslendings í Danmörku í mars í fyrra. Úr aðstöðu sendiráðsins kemur hann fyrir dómstóla í Danmörku og Grænlandi þegar því er að skipta með fjarfundatækni nútímans. Ljósmynd/Aðsend

„Eitt af því sem ég nota gegn þessari sakfellingu er hvað þetta er gamalt, þetta virðist bara hafa sofið í mörg ár og er svo tekið upp í apríl í fyrra,“ segir Gísli Tryggvason lögmaður sem um þessar mundir ver íslenskan mann fyrir Landsrétti Grænlands vegna fíkniefnamáls sem Íslendingurinn hlaut dóm fyrir í þarlendum héraðsdómi í fyrra.

Eftir því sem Gísli kemst næst er þetta í fyrsta skipti sem íslenskur lögmaður ver skjólstæðing fyrir dómi í Grænlandi en Landsréttur er þar millidómsstig, eins og á Íslandi, og Hæstiréttur Danmerkur lokastig áfrýjunar þaðan. Kom Gísli einnig fram sem verjandi Íslendingsins fyrir héraðsdómi í fyrra og flutti þá mál sitt gegnum fjarfundabúnað úr danska sendiráðinu á Íslandi eins og hann hefur gert áður fyrir dönskum dómstólum.

Málavextir eru þeir að Íslendingurinn var handtekinn í grænlenskum smábæ fyrir margt löngu, nálægt miðju síðasta áratugar án þess að hér sé greint nánar frá ártali af tillitssemi við sakborning. Eins og Gísli bendir á í samtali við mbl.is hafði mál hans legið í kerfinu um árabil áður en það kom fyrir héraðsdóm í fyrra.

Taldi lögregla manninn hafa verið að selja hass í bænum en í fórum hans fundust 71.423 danskar krónur, jafnvirði tæplega einnar og hálfrar milljónar íslenskra króna á gengi dagsins í dag, áhöld sem lögregla telur tengjast fíkniefnasölu og lítilræði af hassi.

Þurfti að kæra til Landsréttar

Nægði þetta til þess að héraðsdómur dæmdi manninn til að sæta upptöku fjárins og þeirra muna sem lögregla fann í fórum hans, en ekki var fallist á sektarkröfu ákæruvaldsins vegna þess dráttar sem orðið hefði á málinu.

„Skjólstæðingur minn er tekinn þarna fyrir mörgum árum, grunaður um sölu fíkniefna og svo sefur þetta mál í kerfinu þar til í apríl í fyrra þegar ég er fenginn sem verjandi,“ segir Gísli frá, „ég þurfti nú að kæra það til Landsréttar til að fá að einhvers konar skipun.“

Lagði Gísli fram dómafordæmi máli sínu til stuðnings þegar grænlenski héraðsdómstóllinn hugðist meina honum að sinna málsvörn sakborningsins. „Í öðrum málum hjá danska ríkinu hefur það verið heimilað að norrænn lögmaður sem talar dönsku verji menn, ýmist sem ráðinn lögmaður eða skipaður verjandi,“ segir Gísli.

Allt of há upphæð miðað við mannfjölda

Þeir skjólstæðingur hans mótmæla sakfellingu á grundvelli sönnunargagna sem Gísli telur haldlítil. „Það er ekki einu sinni til mynd af því fé sem var gert upptækt en auk þess er hann tekinn þarna í litlu þorpi og því haldið fram í ákæru að hann hafi selt þar hass. Þessi upphæð sem hann er tekinn með er allt of há miðað við það magn af hassi sem hann hefði getað selt á svona fámennum stað,“ segir Gísli.

Þá komi það fram í gögnum ákæruvaldsins að nær öll upphæðin hafi verið í dönskum 500 króna seðlum sem telja mætti undarlegt hafi hún verið til komin með smásölu til margra kaupenda en ákærði hefur gefið þá skýringu að hann hafi átt í gjaldeyrisviðskiptum áður en lögregla handtók hann.

Enn fremur gagnrýnir Gísli framburð vitnis er hann telur mjög skeikulan og þokukenndan. Bar sjónarvottur þar fyrir héraðsdómi að hafa orðið vitni að hasssölu og hafi seljandinn verið „maður með ístru og danskt útlit“ (d. en mand med stor mave og dansk udseende) og bendir Gísli á það í vörn sinni að vitnið hafi hvorki verið látið bera kennsl á ákærða sem þennan feitlagna Danalega mann hjá lögreglu né fyrir héraðsdómi.

Ekki hægt að sakfella fyrir hvað sem er

„Við teljum bara að eigi að sýkna hann og hafna upptökukröfunni, alla vega að mestu leyti eins og þrautavarakrafan gengur út á,“ segir Gísli sem að eigin sögn var fenginn til málsvarnarinnar fyrir héraðsdómi í fyrra með aðeins klukkustundar fyrirvara.

„En síðan það var hef ég kynnt mér grænlenskt réttarfar og grænlensk refsilög sem eru nokkuð ólík þeim dönsku og íslensku. Hins vegar tel ég að sönnunarreglurnar ættu að vera svipaðar og það sé ekki hægt að sakfella menn fyrir hvað sem er og við munum leggja fram nokkur mál sem fordæmi fyrir Landsrétti Grænlands þar sem menn hafa verið sýknaðir vegna ónógra sönnunargagna,“ segir verjandinn.

Ekki er enn ljóst hvenær málið verður tekið fyrir á grænlenska millidómstiginu. „Hagsmunirnir sem við erum að áfrýja vegna er þessi háa peningaupphæð sem skjólstæðingur minn telur sig eiga þarna inni,“ segir Gísli Tryggvason lögmaður að lokum um mál Íslendingsins sem dæmdur var í fyrra til að sæta upptöku fjár en slapp þó við sekt vegna tafa við málareksturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert