Ákvörðun embættis héraðssaksóknara að fella niður Blönduóssmálið svokallaða á grundvelli neyðarvarnar hefur verið kærð til embættis ríkissaksóknara sem nú skoðar framhaldið.
Rúv greinir frá því að aðstandendur árásarmannsins hafi kært þessa niðurstöðu, en mbl.is hafði áður fengið staðfest frá embætti ríkissaksóknara að kæra vegna niðurstöðunnar hefði borist embættinu 17. mars. Ekki höfðu þó fengist svör við því hver ákvörðun ríkissaksóknara um framhaldið yrði eða hvort sú afstaða lægi yfir höfuð fyrir.
Í ágúst í fyrra var skotárás á heimili á Blönduósi þar sem tveir létust og einn særðist alvarlega. Maður hafði komið vopnaður afsagaðri haglabyssu inn á heimilið, en útidyrahurð hússins var ólæst. Var hann með sjö haglaskot meðferðis.
Hélt húsráðandi síðar á eftir manninum út úr húsinu þar sem kom til orðaskipta sem enduðu á þann veg að húsráðandi var skotinn í kvið og særðist alvarlega. Þá fór árásarmaðurinn aftur inn í húsið og skaut eiginkonu húsráðanda með þeim afleiðingum að hún lést.
„Sonur húsráðanda kom til aðstoðar og náði byssunni af árásarmanninum. Kom til mikilla átaka á milli sonarins og árásarmannsins en í ljós kom að árásarmaðurinn var með veiðihníf í vasa. Átökin enduðu á þann veg að árásarmaðurinn lét lífið. Réttarkrufning hefur leitt í ljós að dánarorsök var köfnun vegna þrýstings á háls og brjóst.
Staðreynt hefur verið að sonurinn hringdi fyrsta símtal til neyðarlínu og óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna byssumanns inni í húsinu kl. 05.27. Lögregla á bakvakt í umdæminu var ræst út sjö og hálfri mínútu síðar. Lögregla var komin á vettvang kl. 05.53 eða 26 mínútum frá fyrstu aðstoðarbeiðni,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar frá því í febrúar þegar greint var frá ákvörðun héraðssaksóknara.