Sterkur grunur um riðuveiki á öðrum bæ

Sterkur grunur leikur á að riða hafi greinst á öðrum …
Sterkur grunur leikur á að riða hafi greinst á öðrum bæ í Miðfjarðarhólfi, um 700 kindur eru á bænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sterkur grunur leikur á að riða sé á öðrum bæ í Miðfjarðarhólfi, um 700 kindur eru á bænum. Þetta staðfestir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, í samtali við mbl.is.

Hún segir að tvö próf hafi sýnt jákvæða niðurstöðu. Enn á þó eftir að staðfesta smit og munu niðurstöður berast eftir klukkan 17 í dag. 

„Engu að síður höfum við hafið undirbúning. Ef að þetta verður staðfest þá fer þetta hefðbundna ferli í gang,“ segir Sigurborg en Rúv greindi fyrst frá. 

Óvissa um urðun 

Í byrjun vikunnar var greint frá því að búið væri að fella allan fjárstofninn á Bergsstöðum í Miðfjarðarhólfi, nærri 700 fjár, vegna riðu. 

Sigurborg segir að staðan sé nú örlítið breytt þar sem Kalka sorpeyðingarstöð getur ekki tekið við hræjum til urðunar vegna bilunar í búnaði. 

Umhverfisstofnun og sveitarfélagið eru ábyrg fyrir urðun og vinna því að því að finna aðra lausn. 

Bergsstaðir í Miðfirði.
Bergsstaðir í Miðfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

20 kindur á aðra bæi

Er þetta hugsanlega smit eitthvað sem hefði mátt búast við?

„Já, í sjálfu sér,“ segir hún og bætir við að framkvæmd var smitrakning í kringum féð á Bergsstöðum. 

Sigurborg segir að skoðað var allt fé sem ennþá var lifandi og hafði verið flutt á aðra bæi.

„Það voru 20 kindur og það voru níu bæir. Það er búið að skoða öll þau sýni og það var aðeins eitt af þeim sem að er núna þetta grunaða sýni. Góðu fréttirnar eru því að þetta er bara einn bær, en slæmu fréttirnar að það skuli vera einn bær.“

Sigurborg segir að lokum að unnið sé með báðar sviðsmyndirnar, þ.e.a.s. að smit verði staðfest eða ekki staðfest. 

„Við vinnum með báðar sviðsmyndirnar, en því miður óttast maður verri sviðsmyndina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert