„Þurfum að rjúfa þennan vítahring“

Poul Nyrup Rasmussen er einn stofnenda Headspace í Danmörku.
Poul Nyrup Rasmussen er einn stofnenda Headspace í Danmörku. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Det Sociale Netværk var stofnað í Danmörku fyrir tíu árum og þá var ástandið einfaldlega þannig að fimmtungur ungmenna í landinu átti við ramman reip að draga,“ segir Poul Nyrup Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og einn stofnenda Det Sociale Netværk, í samtali við mbl.is.

Rasmussen var einn gesta ráðstefnunnar Reset welfare sem haldin var í Grósku í Vatnsmýri í dag fyrir atbeina Bergsins headspace á Íslandi og norrænna samstarfsaðila Bergsins úr röðum Headspace-samtakanna en Sigrún Sigurðardóttir, dósent og stjórnarmaður í Berginu, ræddi aðferða- og hugmyndafræði samtakanna við mbl.is í gærkvöldi.

„Vandamálið var einfaldlega að þessir krakkar voru afskiptir og vöfruðu bara um án þess að nokkur sinnti þeim eða hefði samskipti við þá. Út frá þessu kviknar hugmyndafræði Headspace á sínum tíma,“ segir ráðherrann fyrrverandi.

Sárlega hafi vantað úrræði fyrir þau ungmenni sem hann segir frá – úrræði sem stæðu utan við sjálft kerfið, væru ekki á vegum sveitarfélaganna eða ríkisins en þó í samstarfi við þessa aðila. „Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun Headspace reka samtökin nú miðstöðvar í 28 dönskum bæjum,“ segir Rasmussen frá, „og við höfum hjálpað 78.000 ungmennum í Danmörku þennan áratug.“

„Vandamálið var einfaldlega að þessir krakkar voru afskiptir og vöfruðu …
„Vandamálið var einfaldlega að þessir krakkar voru afskiptir og vöfruðu bara um án þess að nokkur sinnti þeim eða hefði samskipti við þá. Út frá þessu kviknar hugmyndafræði Headspace á sínum tíma.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað með fjármagnið, hefur danska ríkið skilning á þessari starfsemi og er reiðubúið að styðja hana og vernda?

„Já, það gerir það. Núna er þriðjungur af okkar rekstrarfé á fjárlögum danska ríkisins, sveitarfélögin standa undir öðrum þriðjungi og sá þriðji kemur frá einkaaðilum sem veita okkur styrki,“ svarar Rasmussen og bendir á samnorræna staðreynd:

„Ef við lítum á Danmörku, Noreg og Ísland þá er staðan í þessum löndum þannig að það er alveg sama hve mikla peninga þú setur í geðheilbrigðiskerfið, biðlistarnir þar lengjast alltaf, það eru sífellt fleiri ungmenni sem rata á refilstigu andlega og það gerist hraðar en úrræði kerfisins ráða við,“ segir Rasmussen.

Góð fjárfesting fyrir samfélagið

Lausnin sé einfaldlega að grípa fyrr inn í en nú er gert. „Við þurfum að rjúfa þennan vítahring. Við þurfum að hætta að bíða eftir því að unga fólkinu líði nógu illa til að það komist að í geðheilbrigðiskerfinu. Að fara þá leið kostar óheyrilegar peningaupphæðir og svo er alveg undir hælinn lagt hvort nokkuð komi út úr því,“ heldur hann áfram.

„Núna verða ríkisstjórnirnar okkar og stjórnmálamennirnir okkar að skilja að …
„Núna verða ríkisstjórnirnar okkar og stjórnmálamennirnir okkar að skilja að það er nauðsynlegt að fjárfesta í því fyrirbyggjandi starfi sem Headspace er að vinna.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta sé hluti af því sem farið hafi verið yfir á ráðstefnunni í Grósku í dag. „Þetta erum við norrænu samstarfsaðilarnir að tala um hérna í Reykjavík núna í dag. Núna verða ríkisstjórnirnar okkar og stjórnmálamennirnir okkar að skilja að það er nauðsynlegt að fjárfesta í því fyrirbyggjandi starfi sem Headspace er að vinna, það þarf að gerast miklu fyrr en nú er og í miklu ríkari mæli en nú er. Það hjálpar unga fólkinu okkar og það er góð fjárfesting fyrir samfélagið,“ segir Poul Nyrup Rasmussen að lokum.

Stjórnvöld skilji og heyri

„Það er bara búið að ganga algjörlega stórkostlega og það er mikil ánægja hér í dag skal ég segja þér,“ segir Sigurþóra Bergsdóttir, framkvæmdastjóri Bergsins headspace, í samtali við mbl.is. „Við erum rosalega mikið að ræða hverju við þurfum að breyta í aðkomunni að því hvernig við vinnum með geðheilsu ungs fólks, hversu alvarleg staðan er og það að við erum alltaf að gera hlutina eins skili okkur ekki neinu,“ heldur hún áfram.

Sigurþóra Bergsdóttir á ráðstefnunni í dag.
Sigurþóra Bergsdóttir á ráðstefnunni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lágþröskuldanálgun Headspace sé leið sem nýta þurfi mun meira við að koma ungu fólki til aðstoðar sem glímir við vanlíðan og andlegan vanda. „Það er auðvitað langt síðan við komumst að þessari niðurstöðu en við erum auðvitað að reyna að þrýsta á stjórnvöld og þá sem ráða að þeir skilji og heyri og átti sig á hve mikilvægt er að styðja við eitthvað sem er til – eins og okkur – svo við getum komið inn og verið hluti af lausninni,“ segir Sigurþóra.

Hún bendir á að Danir séu komnir lengst í Headspace-hugmyndafræðinni enda Headspace komið á fjárlög þar. Norðmenn séu að byrja og vinni núna að sinni fjármögnun. „Þeir eru farnir af stað og búnir að opna sex staði. En við erum öll í því sama, að reyna að sannfæra stjórnvöld um sparnaðinn sem fylgir því að vinna eins og við vinnum og hve þjóðhagslega hagkvæmt það er að styðja við svona starfsemi,“ segir Sigurþóra enn fremur.

Leikarinn Björn Thors var einn fjölmargra gesta í Grósku í …
Leikarinn Björn Thors var einn fjölmargra gesta í Grósku í dag á ráðstefnunni sem var vel sótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dönsku og norsku gestirnir í dag segi af reynslu sem starfsfólk Bergsins á Íslandi kannist mætavel við, að ungt fólk kunni að meta að geta komið beint inn af götunni og fengið ráðgjöf. „Við þurfum ekki að sjúkdómsvæða allar tilfinningar og við megum alveg koma til móts við fólk fyrr,“ segir Sigurþóra Bergsdóttir að lokum af ráðstefnu Headspace í Grósku í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka