Atvinnuleysi á landinu var 3,5% í seinasta mánuði og minnkaði úr 3,7% í febrúar. Í mars fyrir ári síðan var atvinnuleysið hins vegar 4,9%. Vinnumálastofnun (VMST) spáir því í nýútkominni mánaðarskýrslu um skráð atvinnuleysi að það gæti orðið á bilinu 3,2% til 3,4% í aprílmánuði.
Að jafnaði voru 6.662 einstaklingar atvinnulausir í mars, 3.757 karlar og 2.905 konur. Atvinnuleysið var mest á Suðurnesjum eða 5,2% og minnkaði úr 5,8% frá mánuðinum á undan. „Næstmest var atvinnuleysið 3,8% á höfuðborgarsvæðinu þar sem það stóð í stað frá febrúar. Atvinnuleysi var 3,1% á landsbyggðinni í mars og minnkaði úr 3,4% í febrúar. Á flestum stöðum á landsbyggðinni minnkaði atvinnuleysið frá febrúar nema á Vestfjörðum þar sem það stóð í stað,“ segir í skýrslu VMST.
Mismunandi er eftir atvinnugreinum hversu hratt dregur úr atvinnuleysinu. Í mars varð mest hlutfallsleg fækkun atvinnulausra í ferðatengdum atvinnugreinum eða um 11% að meðaltali. Fram kemur að í verslun og vöruflutningum hafi atvinnulausum fjölgað lítils háttar í marsmánuði eða um tæp fjögur prósent frá febrúar.
Atvinnuleysið er mest meðal erlendra ríkisborgara og er hlutfall þeirra á atvinnuleysisskrá tæp 47% í lok mars. 3.237 erlendir atvinnuleitendur voru þá án atvinnu sem samsvarar 6,7% atvinnuleysi meðal þeirra.