„Við erum að meta það á þessari stundu hversu langt er hægt að ganga í þessum efnum,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón var spurður um vinnu í ráðuneytinu er snýr að breytingum á sviði happdrættismála í kjölfar umfjöllunar í Morgunblaðinu í gær um fjárhættuspil Íslendinga á erlendum veðmálasíðum. Þar kom fram að áætlað sé að Íslendingar eyði um 20 milljörðum króna í fjárhættuspil á erlendum veðmálasíðum á ári og að íþróttaveðmál færist sífellt í aukana með tilheyrandi fjölgun í hópi þeirra sem leita sér aðstoðar vegna spilafíknar.
Í fréttinni kom fram gagnrýni á að Ísland sé sennilega eina Evrópuríkið sem ekki hafi sett reglur um veðmálastarfsemi og bent var á að erlendar vefsíður sæki sér milljarða í tekjur hingað án þess að ríkið beri nokkuð úr býtum. Sem kunnugt er kom engin afgerandi niðurstaða út úr skýrslu starfshóps um happdrætti sem birt var í byrjun árs, enda náðist ekki samstaða innan hópsins.
„Við erum búin að hitta þessa hagsmunaaðila, bæði fyrir og eftir að skýrslan kom út. Það er samtal í gangi um það hvernig framtíðarskipanin verður og við erum að undirbúa þingmál fyrir haustið,“ segir Jón við Morgunblaðið.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.