Drengur í æfingaakstri keyrði inn í verslun

Drengur í æfingaakstri keyrði inn í Vinnufataverzlunina á Smiðjuvegi fyrir …
Drengur í æfingaakstri keyrði inn í Vinnufataverzlunina á Smiðjuvegi fyrir slysni. Ljósmynd/Aðsend

Drengur í æfingaakstri keyrði inn í Vinnufataverzlunina á Smiðjuvegi rétt í þessu fyrir slysni en þetta staðfestir Vignir Andersen, verslunarstjóri Vinnufataverzlunarinnar, í samtali við mbl.is.

Að sögn Vignis keyrði drengurinn bílinn í gegnum glerrúðu á versluninni en hafnaði sem betur fer á burðarstólpi við hurðina og fór bílinn því ekki allur inn í verslunina. „Það var ekki hugmyndin að bjóða upp á drive-through vinnufataverslun,“ segir Vignir kíminn.

„Hágrátandi greyið kallinn“

„Þetta var strákur í æfingaakstri sem var á rafmagnsbíl og fór bara á vitlausan pedala og dúndrar hérna á rúðuna. Hann náði þó ekki inn í verslunina því hann fór á þykkari póstinn við hurðina,“ segir Vignir og bætir við að lukkulega hafi ekki farið verr. Hann segir það mikilvægasta vera að enginn hafi slasast.

„Það slasaðist enginn en hann er bara hágrátandi greyið kallinn. Þetta er bara bíll.“ Að sögn Vignis var bíllinn óökufær eftir slysið.

Hann tekur fram að verslunin sé tryggð fyrir tjónum sem þessum og að ekki þurfi að loka búðinni á næstu dögum þar sem að verktakar séu mættir á vettvang til að byrgja fyrir opið á rúðunni.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert