Tíu drengir sem æfa hjá Brettafélagi Hafnarfjarðar (BFH), munu hjóla í 24 klukkustundir, í dag og á morgun, til að safna áheitum fyrir vin sinn Elís Huga Dagsson. Elís Hugi lenti í alvarlegu slysi fyrir tæpu ári síðan á bikarmóti á Úlfarsfelli og lamaðist í kjölfarið. Vinir Elís Huga safna nú áheitum til að safna fyrir sérútbúnu fjallahjóli fyrir félaga sinn.
„Þeir munu byrja að hjóla saman og svo taka þetta í vöktum,“ segir Helgi Berg Friðþjófsson, þjálfari drengjanna hjá Brettafélagi Hafnarfjarðar, í samtali við mbl.is. Strákarnir hjóla klukkutíma í senn til að ofreyna sig ekki.
Helgi segir strákana hafa fundið á Elís Huga að hann langaði aftur að hjóla eftir slysið. Þeir hefðu vitað að til væri sérstakt hjól fyrir einstaklinga sem notast við hjólastól og ákveðið að safna fyrir hjólinu. Aðeins eru til um 150 hjól af slíkri gerð í heiminum og geta þau kostað á bilinu þrjár til fjórar milljónir króna.
„Þeir fengu þessa hugmynd að safna fyrir hjólinu, svo hann gæti hjólað með strákunum áfram. Hann er algjör útivistarpjakkur í grunninn,“ segir Helgi og bætir við „Hann er rosalega spenntur og hrærður og ánægður með félaga sína að vilja leggja þetta á sig. Þetta er mikill draumur hjá honum að verða að veruleika, að fara aftur á stað“. Hann segir Elís Huga, líkt og marga íþróttamenn, í gríðarlega góðu formi og því fyrri til að fara aftur af stað en margir.
BFH ásamt foreldrafélagi hópsins og Hjólreiðasambandi Íslands (HRÍ) standa að áheitasöfnuninni með strákunum en HRÍ lánar alls 23 hjól til átaksins. Helgi tekur fram að öllum sé velkomið að mæta til að hjóla með strákunum eða horfa á.
Strákarnir sem munu hjóla til styrktar Elís eru þeir Anton Sigurðarson, Alfonso Cervera, Emil Sölvi Runólfsson, Ísak Steinn Davíðsson, Tómas Kári Björgvinsson, Sólon Sölvason, Adam Berg, Hilmar Páll Andrason, Magnús Helgason og Magni Már Arnarsson.
„Þetta er ótrúlega samheldin hópur og ég er mjög stoltur af þeim,“ segir Helgi. Viðburðurinn hófst núna klukkan 14 og lýkur klukkan 14 á morgun, ítarlegri upplýsingar má finna á facebook viðburði söfnunarinnar.
Áheit má leggja inn á:
Reikn: 0123-15-098343
Kt: 261071-4289