Upprennandi og ungur viðskiptamaður í Vesturbæ vakti athygli í gær er hann skipti á Pokémon-spili og giftingahring sem hann var með. Annar glöggur upprennandi athafnamaður í 4. bekk í Melaskóla skipti við hann og kom heim með hringinn.
Hinn upprennandi athafnamaður lét svo foreldra sína fá hringinn en faðir drengsins vakti athygli á málinu í Vesturbæjar-hópnum á Facebook.
„Ég efast ekki um að það er einhver þarna úti sem saknar hans mjög mikið og því vona ég innilega að internetið leysi þetta fyrir okkur. Inni í hringnum er skammstöfun sem eigandinn veit eflaust hver er. Miðað við stærð er þetta líklega karlmannshringur,“ skrifar faðir drengsins í færsluna.