Samúel Ívar Árnason, bróðir Stefáns Arnars Gunnarssonar sem fannst látinn fyrir tveimur vikum síðan eftir að hans hafi verið leitað í mánuð, leitar svara við því hvers vegna saga bróður síns endaði eins og hún gerði í færslu á facebook-síðu sinni.
„Það fer að renna upp fyrir okkur að hann kemur aldrei aftur í heimsókn, hringir ekki framar, sendir ekki fleiri skilaboð. Engar skýjaborgir sem höfðu fundið sér fótfestu í huga okkar munu rætast. Það verða engir endurfundir, þetta er endanlegt,“ segir Samúel í byrjun færslunnar.
Samúel, sem er starfandi þjálfari meistaraflokks kvenna hjá HK, segir ýmiss konar sögur og umtal hafa borist honum og öðrum aðstandendum um atburðarás sem standist ekki skoðun þegar nánar er að gáð. Hann sækist eftir því með færslu sinni að rétta þetta umtal og skýra þá atburðarás sem endaði með þessum harmleik.
Samúel segir bróður sinn hafa staðið undir árásum og fölskum ásökunum í allan vetur sem að drógu úr baráttuþreki bróður síns sem leiddi til þess sorglega endi sem blasi nú við.
„Á endanum hafði Arnar minn ekki kraftinn til að standa af sér þennan storm, þrátt fyrir að hann hefði þéttan vinahóp á bak við sig, þar á meðal einstaklinga innan íþróttafélagsins HK. Þið sem stóðuð að baki þessum stormi megið bera skömmina að eilífu og ættuð að mínu mati að halda ykkur fjarri öllu íþrótta og tómstundastarfi héðan í frá, þið eruð ekki hæf til verksins.“
Samúel hefur starfað við þjálfun og kennslu í yfir 30 ár en hann segir að eftir því sem árin líða verði sífellt ljósara hve mikil áhrif foreldrar hafa á störf íþróttafélaga. Hann segir áhrifin bæði vera neikvæð og jákvæð. Hið jákvæða segir hann vera fjáraflanir og sjálfboðaliðastarf en að hið neikvæða geti verið mjög afdrifamikið.
„Neikvæða hliðin er helst sú að foreldrar hafa á tíðum sterkar skoðanir á því hvar barnið/ungmennið sitt stendur gagnvart öðrum iðkendum sama flokks. Sum hver bjóða sig fram til starfa fyrir félagið, meðal annars í barna og unglingaráðum og stjórnum deilda eða félaga. Því miður virðist hvatinn þar að baki oft vera að liðka fyrir framgangi eigin afkvæmis en ekki til að stuðla að faglegu og öflugu starfi félagsins í heild,“ segir í færslunni.
Hann undirstrikar þá pressu sem þjálfurum getur borist frá foreldrum vegna val þjálfarans í lið og fleira. Hann segir marga foreldar snúast gegn þjálfaranum og vinni gegn honum.
„Þannig frétti ég fyrr í vetur að foreldrar einhverra leikmanna í mínu liði hafi reynt að safna undirskriftum til að fá mig rekinn á haustmánuðum. Ekki vegna þess að ég hefði gerst brotlegur í starfi, heldur eingöngu vegna þess að afkvæmi þeirra voru ekki að fá tækifærin sem þeim þótti þau eiga rétt á. Firringin og frekjan nær alla leið, upp og niður alla aldursflokkana,“ og á hann þá við starf sitt með liði HK sem er í meistaraflokki í Olísdeildinni.
Hann ítrekar að starf þjálfara sé að velja besta hópinn en ekki endilega að láta bestu leikmennina spila. Hann segir það mikilvægast að velja hóp sem virkar vel saman.
„Þetta virðast margir foreldrar eiga ákaflega erfitt með að skilja eða sætta sig við, telja sig annað hvort vita meira um handbolta en margreyndir þjálfarar sem vinna með hópinn mörgum sinnum í viku, eða ætla sér að beita áhrifum sínum eða völdum til að fá óverðskulduð „tækifæri“ fyrir börnin sín.“
Hann segir Arnar bróður sinn hafa gengið í gegnum töluvert erfiðari raunir í sínu starfi sem þjálfari hjá HK.
„Þar fór fólk úr hópi foreldra 3ja flokks drengja sem Arnar þjálfaði að vinna markvisst að því að losa sig við hann. Ástæða óánægjuradda í upphafi? C er ekki að fá sömu tækifæri og G eða Y, er í B-liðinu þegar foreldrinu finnst að hann eigi að vera í A-liðinu. Fjölmargir fundir áttu sér stað og áreitið á Arnar nánast stanslaust allt tímabilið.“
Samúel segir að tíunda janúar hafi Arnar verið boðaður á fund þar sem ætlunarverkið var að bola honum úr starfinu sínu en að það hafi mistekist.
„Viku seinna, eða 17.janúar berst ÍSÍ bréf um að Arnar hafi hagað sér ósæmilega gangvart iðkendum og brotið siðareglur félagsins. HK sé meðvitað um stöðuna en sé ekki að gera neitt í málinu. Innihald þessa bréfs er byggt á sögusögnum og dylgjum og standast nákvæmlega enga skoðun þegar kafað er í málið.“
Síðan er Arnari sagt upp þann 24. janúar eftir samskipti á milli ÍSÍ og HK um meint brot gegn siðareglum félagsins en ekkert af því var notað sem ástæða uppsagnarinnar að sögn Samúels.
„Þar eru ástæður uppsagnar sagðar „brot á siðareglum“ sem felst í að Arnar tók poka með sokkum og leyfði iðkendum að eiga, og „samskiptavandi milli Arnars og foreldra í hópnum“.“
Uppfært: Þegar Samúel talar um ÍSÍ í færslu sinni á hann við samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Ráðgjafinn er skipaður af ráðuneytinu og starfar sjálfstætt utan ÍSÍ. Mál Stefáns Arnars kom aldrei inn á borð ÍSÍ.
Hann bætir við að uppsögnin og ferlið í kringum það hafi verið líkt farsa og bendir á ýmsa annmarka á framkvæmd uppsagnarinnar. „Eftirmenn Arnars í þjálfuninni eru svo eiginmaður framkvæmdastjórans og tveir góðir vinir hans, annar þeirra starfandi yfirþjálfari hjá félaginu með afar skrautlega forsögu í sínum samskiptum við iðkendur. Faglega unnið eða hvað?“
Samúel segir allar ásakanir gegn Arnari vera dylgjur og harmar það að ásakanirnar höfðu einnig verið sendar á Kópavogsskóla þar sem Arnar starfaði sem umsjónarkennari. Hjá Kópavogsskóla var öðruvísi í pottinn búið og var málið afgreitt á tveimur sólarhringum en eftir það mætti Arnar aftur til vinnu.
„Innihald bréfsins var þess eðlis að það var einfalt að afgreiða það sem þvætting. Ef einhver fótur væri fyrir þeim ásökum sem stóðu í bréfunum tveim, er algerlega ljóst í mínum huga að hann hefði ekki fengið að mæta aftur til að kenna 11 ára börnum.“
Hann segir bróðir sinn hafa staðið undir stanslausum árásum í allan vetur og að hann hafi að lokum ekki haft baráttuþrekið til að halda það út.