„Vorið er greinilega komið“

Fagmenn að störfum.
Fagmenn að störfum. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Annríki hefur verið á dekkjaverkstæðum landsins í dag, en frá og með deginum í dag, 15. apríl, er óheimilt að keyra um á nagladekkjum. 

Þorgeir Jóhannesson, framkvæmdastjóri Dekkjahallarinnar á Akureyri, segir vertíð dekkjaskiptanna hafa farið vel af stað. „Vorið er greinilega komið.“

Í Dekkjahöllinni er ekki bókunarkerfi, heldur gilda biðraðirnar. Þorgeir segir dágóðar raðir hafa myndast í dag, en þó hafi allt gengið vel fyrir sig. 

Seinkun sekta ekki letjandi

Lögreglan hefur lýst því yfir að ekki verði sektað fyrir akstur á nagladekkjum fyrr en í maí, þó að tímabilið sé liðið. Það virðist þó ekki hafa letjandi áhrif á bifreiðaeigendur. 

„Fólk vill greinilega drífa sig í þessu og losna við nagladekkin undan bílunum. Það verður væntanlega mikið að gera næstu tvær vikur en þá verður þetta langt komið.“

Mynd tekin á verkstæði Dekkjahallarinnar.
Mynd tekin á verkstæði Dekkjahallarinnar. mbl.is/Þorgeir Baldursson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert