Búið að skipta um kurl á 68% vallanna

Gervigras lagt á Hlíðarenda 2021. Margir gervigrasvellir hafa verið endurnýjaðir …
Gervigras lagt á Hlíðarenda 2021. Margir gervigrasvellir hafa verið endurnýjaðir á síðustu árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef ráðast þarf í endurnýjun hátt í 200 gervigrasvalla hér á landi á næstu árum vegna yfirvofandi banns Evrópusambandsins á notkun innfylliefna með örplasti, verður án efa höfð til hliðsjónar reynslan af því að skipta út kurluðu dekkjagúmmíi á íþrótta- og leikvöllum á umliðnum árum.

Tillaga framkvæmdastjórnar ESB gerir ráð fyrir sex ára aðlögunartíma en talið er skipta sköpum að hann verði lengdur í átta til tíu ár, þar sem endingartími gervigrasvalla er að jafnaði allt að tíu ár. Sveitarfélög landins bera kostnaðinn.

Mikil vinna hefur verið lögð í að skipta út dekkjagúmmíinu fyrir hættuminni efni á gervigrasvöllunum en Alþingi samþykkti bann við notkun þess árið 2016. Vinnuhópi var því næst falið að setja fram aðgerðaáætlun sem birt var í janúar 2017 og er til tíu ára. Þá þegar var búið að skipta út lausu kurli á fjölda valla.

Lokin áttu að vera 2026

Samkvæmt aðgerðaáætluninni átti að verða búið að skipta út kurluðu dekkjagúmmíi fyrir hættuminni efni á 60% leik- og íþróttavalla fyrir árslok 2019, 80% átti svo að vera lokið í árslok 2022 og verkefninu á samkvæmt áætluninni að vera að fullu lokið í árslok 2026.

Umhverfisstofnun var falið að fylgjast með framvindu verksins. Spurð um stöðu verkefnisins segir Steinunn Karlsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, að stofnunin hafi kannað sl. haust í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga stöðuna á endurnýjun kurls á gervigrasvöllum. Send var út könnun til sveitarfélaganna og óskað var eftir upplýsingum um fjölda gervigrasvalla og á hvaða völlum var búið að skipta út kurli.

„Það bárust svör frá 42 sveitarfélögum af 64 en í þessum 42 sveitarfélögum búa 92,4% landsmanna. Alls eru 82 gervigrasvellir í þessum 42 sveitarfélögum og búið er að skipta um kurl á 68% þeirra. Í áætlun um útskipti á dekkjakurli á leik- og íþróttavöllum var stefnt á að fyrir lok árs 2022 væri búið að skipta um kurl á 80% af gervigrasvöllum,“ segir Steinunn í svari við fyrirspurn blaðsins.

Hún segir að ekki sé búið að meta hvaða aðgerðir þurfi að ráðast í ef ný löggjöf verður samþykkt hjá ESB. „Ef hún verður samþykkt þá verður það metið þegar hún kemur til innleiðingar á Íslandi,“ segir Steinunn.

Nánar var fjallað um málið í Morgunblaðinu í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert