Engu nær um hvernig kannabisbangsar rötuðu til ömmu

Fíkniefnið var dulbúið sem gúmmíbangsi og hafði ratað í bíl …
Fíkniefnið var dulbúið sem gúmmíbangsi og hafði ratað í bíl ömmu barnsins. Samsett mynd

Foreldrar stúlku sem innbyrti kannabisblandinn hlaupbangsa fyrir helgi eru engu nær um hvernig sælgætið rataði í hendur barnsins. Stúlkan, sem er fimm ára, þurfti að dvelja sólarhring á gjörgæslu með kannabiseitrun.

Þau Anna María Hofmann Guðgeirsdóttir og Gunnþór Kristinsson eru foreldrar stúlkunnar og voru til viðtals í kvöldfréttum RÚV.

Trúðu ekki að stúlkan hefði innbyrt kannabis

Amma stúlkunnar var að passa hana þegar hún byrjaði að sýna einkenni eitrunar og virtist vera að missa meðvitund. Sjúkrabílar sóttu hana og blóðprufur bentu til þess að hún hefði innbyrt mikið magn kannabisefna.

Þau Anna María og Gunnþór áttu bágt með að trúa því í ljósi þess að enginn í fjölskyldunni kannaðist við að hafa komið með slík efni inn á heimilið og að ekkert þeirra væri í neyslu.

Í ljós kom að amma stúlkunnar hafði gefið henni hlaupbangsa stuttu áður sem höfðu birst í bílnum hennar í innsigluðum poka. Bróðir stúlkunnar smakkaði einn þeirra og sagði afar skrítið bragð af honum. Bangsinn var síðar sendur til lögreglu sem greindi kannabisefni í honum. 

Foreldrar stúlkunnar segja mikilvægt að aðrir viti af tilvist viðlíka sælgætis og gæti þess að börn komist ekki í þau. Stúlkunni heilsast nú vel eftir erfiða spítaladvöl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert