Segir KPMG vera á spena hjá Reykjavíkurborg

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins telur viðskiptasamband KPMG við Reykjavíkurborg …
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins telur viðskiptasamband KPMG við Reykjavíkurborg óeðlilegt. Samsett mynd

Reykjavíkurborg hefur greitt endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækinu KPMG ríflega 100 milljónir króna fyrir hin ýmsu verkefni, á síðustu fimm árum, þar af 41 og hálfa milljón á árinu 2022. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins segir fyrirtækið „á spena“ hjá borginni og leggur til að viðskiptasambandinu verði slitið.

Í svari fjármála- og áhættustýringarsviðs við fyrirspurn borgarfulltrúans kemur fram að frá árinu 2018 og til marsmánaðar 2023 hafi KPMG sinnt 34 verkefnum fyrir borgina sem hafi sum gengið í nokkur ár.

Segir Borgarskjalasafnsskýrsluna ófaglega

Borgin skipti mismikið við fyrirtækið á þessum árum en síðasta ár var það dýrasta og nam heildarupphæð viðskipta þá 41.528.987 krónum.  Drýgstu verkefnin voru þá rúmlega 15 milljónir fyrir húsnæðisgreiningu Borgarskjalasafns og ríflega 8 milljónir fyrir ráðgjöf vegna skjalastjórnunar.

Kolbrún gerir sérstaka athugasemd við kostnað skýrslunnar vegna Borgarskjalasafnsins sem hún segir hafa verið „hrikalega ófaglega“.

„Það að taka æruna af borgarskjalaverði í leiðinni fannst mér mjög gróft,“ segir Kolbrún sem er mótfallin fyrirætlunum borgarinnar um lokun safnsins sem var tilkynnt fyrr á árinu. Telur Kolbrún skýrslu KPMG hafa verið „pantaða“

Fyrirtækinu eru gefnar ákveðna forsendur til að vinna út frá, sem leiða á leynt og ljóst að ákveðinni niðurstöðu, og fær fyrir ríflega summu og auðvitað áframhaldandi verkbeiðnir.

Ein og hálf milljón í stefnumótun Grasagarðs

Meðal þeirra verkefna sem kom í hlut KPMG að vinna fyrir borgina voru stefnumótun umhverfis- og viðskiptasviðs, sem kostaði borgina tæpar sjö milljónir árið 2020, og ráðgjöf vegna stefnumótunar sem kostaði 608.953 krónur.

Þá greiddi borgin rúmar fimm milljónir króna fyrir ráðgjöf við sviðsmyndagreiningu árið 2018 og árin 2021 og 2022 fór rúm ein og hálf milljón króna í verkefnið „Stefnumótun Grasagarðs“.

Leggur til að þjónustan verði boðin út

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hætti alfarið að skipta við KPMG og að þjónustan verði boðið út eða farið í verðkönnun á þjónustunni sem KPMG veitir borginni.

„Fulltrúa Flokks fólksins er ofboðið ekki aðeins bruðlið sem hér á sér stað heldur einnig vegna  dæma um að að greiningaskýrslur frá KPMG séu ekki taldar trúverðugar,“ segir í tilkynningu flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert