Söfnunin bar árangur og Elís hjólar á ný

Strákarnir fagna afrekinu.
Strákarnir fagna afrekinu. Ljósmynd/Aðsend

Nægt fé safnaðist til þess að hægt væri að kaupa sérútbúið hjól fyrir Elís Huga Dagsson, í áheitasöfnun tíu félaga hans sem hjóluðu sleitulaust í sólarhring frá laugardegi til sunnudags. 

Elís Hugi lenti í al­var­legu slysi fyr­ir tæpu ári síðan á bikar­móti á Úlfars­felli og lamaðist í kjöl­farið. Vin­ir Elís Huga sem æfa hjá Bretta­fé­lagi Hafn­ar­fjarðar (BFH), fundu á Elís Huga að hann langaði að hjóla aftur eftir slysið. Þeir komust að því að til væri sérstakt fjallahjól fyrir þá sem nota hjólastól, og ákváðu að safna fyrir hjólinu. 

Aðeins eru til um 150 hjól af slíkri gerð í heim­in­um og geta þau kostað á bil­inu þrjár til fjór­ar millj­ón­ir króna. 

Sérpanta þurfti hjólið að utan, en strákarnir voru sannfærðir um að þeir ættu eftir að ná markmiði sínu. Því var búið að panta hjólið og það kom til landsins í morgun. Þegar þeir kláruðu svo áskorunina, höfðu þeir safnað nægu fé fyrir hjólinu. 

Elís Hugi mátaði hjólið samstundis, og strákarnir fóru með honum í hjólaferð, þrátt fyrir að verða orðnir ansi lúnir eftir að hafa hjólað um 2.500 kílómetra undanfarinn sólarhring, en það samsvarar einum og hálfum hring umhverfis landið. 

Þessi mynd er tekin af strákunum í blálokin, rétt áður …
Þessi mynd er tekin af strákunum í blálokin, rétt áður en þeir gátu stigið af hjólunum. Ljósmynd/Aðsend

Mætir á æfingu á mánudaginn

Helgi Berg Friðþjófs­son, þjálf­ari drengj­anna, var með þeim í alla nótt að stilla hjólin og skipta um hnakka. Hann segir að dagskráin hafi verið þétt. Þeir hafi skipst á að hjóla klukkutíma í senn, svo hver og einn hjólaði í um 11 klukkustundir. 

„Fólk dáðist að dugnaðinum og hreifst með. Það var alveg geggjað að geta gert þetta fyrir Elís Huga. Foreldrarnir eiga mikið hrós skilið fyrir skipulagninguna. Þetta er ótrúlegur hópur.“

Áheitin komu mörg frá fyrirtækjum, en einnig frá einstaklingum sem höfðu engin sérstök tengsl við strákana. Samtakamátturinn varð til þess að Elís Hugi getur nú byrjað að stunda hjólreiðar aftur, en hann mætir á fyrstu æfinguna sína með strákunum á mánudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert