Stundum losnar málning af veggjum

Una Torfa er meðal þeirra sem koma fram á miðvikudaginn.
Una Torfa er meðal þeirra sem koma fram á miðvikudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur alltaf verið stefnan að hafa dagskrána fjölbreytta og helst eitt atriði frá Færeyjum. Í ár bjóðum við upp á alls konar músík og erum stolt af því hvað þetta er fjölbreytt,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson, dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og annar stofnenda tónlistarhátíðarinnar Heima í Hafnarfirði sem fram fer á miðvikudaginn kemur, síðasta vetrardag.

Heima merkir nákvæmlega það – heima. Gestrisið fólk í Hafnarfirði opnar sum sé heimili sín fyrir gestum og tónlistarfólki eina kvöldstund. 13 tónlistarmenn eða sveitir koma fram í ár og leikur hver þeirra á tveimur stöðum. Við erum að tala um Bjössa Thor og Unni Birnu, Langa Sela og Skuggana, Herbert Guðmundsson, Blood Harmony, 200 frá Færeyjum, Árnýju Margréti, Guðrúnu Árnýju, Unu Torfa, Dr. Gunna, Diddú, Diljá, Eyfa og Frid. Hverjir tónleikar um sig standa í 30-40 mínútur, þannig að skipuleggi fólk sig vel gæti það náð nokkrum tónleikum.  

Ólafur Páll Gunnarsson kynnir atriði á Heima í fyrra.
Ólafur Páll Gunnarsson kynnir atriði á Heima í fyrra. Ljósmynd/Kristvin Guðmundsson


Í grunninn sömu húsin

 – Eru þetta alltaf sömu húsin sem opnuð eru upp á gátt?

„Já, í grunninn er þetta sama fólkið sem býður heim en það getur þó breyst milli ára. Sumir flytja, aðrir eru erlendis og þar fram eftir götunum. Ég held að við séum með þrjú ný hús að þessu sinni, þar á meðal eru María Heba leikkona og Kristófer Dignus kvikmyndagerðarmaður. Hverfisgata 15, upp af Fríkirkjunni, sem allir Hafnfirðingar þekkja, verður líka með í fyrsta sinn núna og einnig verður hægt að hlusta á músík í bílskúrnum hjá Margréti Eir og Jökli Jörgensen. Þá opnar Sigmar, kærasti Sigga Gunnars, kollega míns á Rás 2, sitt heimili og þar verður ábyggilega mikið Júróstuð, þekki ég þá rétt. Þar verður Diljá og reyndar líka Færeyingarnir. Svo má ekki gleyma því að einnig verða tónleikar í Fríkirkjunni. Við erum mjög ánægð með að fá að vera þar.“ 

Krummi og félagar troða upp í The Shed í garðinum …
Krummi og félagar troða upp í The Shed í garðinum á Suðurgötu 9 hjá Anthony og Ýr á Heima í fyrra. ​ Ljósmynd/Kristvin Guðmundsson


Hann nefnir einnig Suðurgötu 9 hjá Anthony og Ýr þar sem tónleikarnir fara fram í skúr úti í garði, The Shed.

 – Er hægt að lýsa í orðum stemningunni sem myndast?

„Hún er bara ótrúlega góð, heimilisleg og þægileg. Það er auðvitað meira en að segja það að bjóða Jóni og Gunnu heim í stofu og gestgjafarnir eiga mikið lof skilið. Stundum er stemningin róleg og heyra má saumnál detta og stundum losnar málning af veggjum. Og allt þar á milli.“

Alls er rúm fyrir um 450 manns á hátíðinni og enn er hægt að fá miða á tix.is.

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert