Farfuglarnir eru teknir að leita á æskustöðvarnar frá vetrarheimkynnum sínum erlendis, þótt margar af þeim 75-80 tegundum sem verpa hér á landi að staðaldri eigi flugið yfir Atlantsála enn eftir. Umferðarfarfuglar, sem hafa skamma viðdvöl hér á leið sinni vestur og norður á bóginn, eru líka farnir að sjást, þar á meðal blesgæsir, helsingjar og margæsir.
Við þetta bætast svo enn aðrar tegundir, sem koma hingað í ævintýraleit eða slæðast með öðrum fuglum, eða þá lenda á hrakningi í óveðrum; í mars og það sem af er aprílmánuði eru þær hátt í 50 talsins.
Síðast en ekki síst er að nefna gæsategund, sem myndin er af, og sem hefur heiðrað íbúa í Garði á Reykjanesi með nærveru sinni undanfarna daga. Varpheimkynni hennar eru í norðanverðri Síberíu. Hún var áður flokkuð sem akurgæs (Anser fabalis) og er það sums staðar enn og þá talin vera deilitegund, Anser fabalis rossicus; systurtegund hennar er þar taigagæs. Sú fyrrnefnda er m.a. töluvert nefstyttri og á stærð við heiðagæs, en hin er á stærð við grágæs. En sumir fuglafræðingar líta svo á, að túndrugæsin sé allt önnur tegund en akurgæs og kalla hana upp á latínu Anser serrirostris; hin er þá sögð vera Anser fabalis. Eflaust fæst botn í þetta um síðir.
Nánar var fjallað um málið í Morgunblaðinu í gær.