Maður sem framdi vopnað rán á Stapagrilli í Innri-Njarðvík í dag ógnaði ungri afgreiðslustúlku með hnífi og rændi fé úr peningakassanum.
„Þetta er mikið áfall fyrir fimmtán ára stelpu,“ segir Grétar Þór Grétarsson, eigandi Stapagrills í samtali við mbl.is.
Þegar hann heyrði af atvikinu var hann staddur í Reykjavík. „Starfsmaður hringir í mig og ég náttúrlega brunaði strax til baka,“ segir hann.
Hann segir að tvo starfsmenn hafa verið á vakt þegar maðurinn gekk inn. Enginn annar varð vitni að ráninu fyrir utan einn viðskiptavin sem hafði lagt bílnum sínum við lúguna.
Grétar segir að um 25 til 30 þúsund krónum hafi verið stolið úr kassanum. „Við pössum okkur á að vera ekki með of mikið í kassanum. Þetta er bara rétt svo upp á skiptimynt,“ segir hann.
„Þá var bara tekið úr öðrum kassanum. Við erum með tvo kassa.“
„Hann kemur inn þegar það er tómur salur og bara einn bíll í bílalúgunni. Sá sem var í þeim bíl verður vitni að því þegar hann hleypur út,“ segir Grétar. Síðan hafi árásarmaðurinn hlaupið á bak við húsið en ekki er víst hvernig hann forðaði sér frá vettvangi.
„Við erum með myndavélar á tveimur af þremur hliðum hússins. Hann hleypur út af framan og fer fyrir aftan húsið. Við sjáum ekkert hvort hann hafi verið með bíl lagðan þar,“ segir hann.
„Mér finnst líklegt að hann hafi verið fótgangandi. Á bak við er lagerhurðin og þeir sem eru að vinna heyra alltaf þegar einhver er að koma.“
Sérsveit var kölluð út í dag vegna ránsins. Grétar segir að lögreglan hafi brugðist mjög vel við atvikinu og að viðbrögð hafi verið afar fljót. „Við búum nú ekki nálægt lögreglustöðinni en lögreglan var mætt á bara nokkrum mínútum.“
Á leið sinni til Njarðvíkur hafði hann einnig keyrt fram hjá lögreglubílum. „Þeir fara strax að rúnta um göturnar,“ segir hann. „Ég tók eftir því að þeir fóru að umkringja skólalóðirnar.“