Bolvíkingar eru orðnir 1.000 talsins. Þetta gerðist síðastliðinn fimmtudag þegar þeim Gunnari Samúelssyni og Rúnu Kristinsdóttur, sem búa í Bolungarvík, fæddist dóttir.
Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu hefur þess lengi verið beðið í bænum að íbúatalan nái fjögurra stafa tölu.
Þann 1. desember 2021 voru bæjarbúar 955 og í janúar síðastliðnum 997. Og nú er talan komin í 1.000 sem er 4,5% fjölgun íbúa á fimmtán mánuðum.
„Þessi viðburður markar tímamót fyrir sveitarfélagið,“ segir bæjarráð Bolungarvíkur sem bókaði sérstaklega um barnsfæðinguna á fundi sínum fyrir helgina. Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri færði foreldrunum gjöf á laugardaginn og ætlar að heimsækja þau og barnið nú í vikunni.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.