Stjórn dómstólasýslunnar er klofin í afstöðu sinni til frumvarps dómsmálaráðherra um sameiningu dómstóla, sem nú liggur fyrir þinginu.
Stjórnarmennirnir, Halldór Björnsson héraðsdómari og Hervör Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar, hafa skilað inn umsögn vegna málsins. Þau telja þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og lúta að sameiningu dómstólanna ekki vera til þess fallnar að styrkja dómstóla landsins eins og markmið frumvarpsins hljóti að vera, sem segir í umsögn þeirra.
Þá vísa þau enn fremur til athugasemda dómstjóra á landsbyggðinni máli sínu til stuðnings og taka undir sjónarmið sem koma þar fram.
Dómstólasýslan nefnir í umsögn sinni til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis að skiptar skoðanir séu innan stjórnar dómstólasýslunnar um frumvarpið en meirihluti stjórnarinnar sé sammála efnislegri útfærslu þess um sameiningu dómstólanna í einn héraðsdómstól með átta starfstöðvar og styðji breytingar sem í því felist.
Dómstólasýslan lýsir sig þó ósammála kostnaðarmati ráðuneytisins og að kostnaður vegna frumvarpsins rúmist innan ramma gildandi fjárlaga. Dómstólasýslan segir í umsögn sinni að matið sé ekki rökstutt í frumvarpinu en samkvæmt áætlun dómstólasýslunnar megi gera ráð fyrir að fjárfestingar- og rekstrarkostnaður vegna sameiningarinnar nemi á fjögurra ára tímabili um 220 milljónum króna og að varanleg hækkun kostnaðar verði um 21 milljón króna á ári.
Í umsögn sinni segist dómstólasýslan hafa gert grein fyrir aukinni útgjaldaþörf við undirbúning fjármálaáætlunar fyrir bæði tímabilið 2023-2027 og tímabilið 2024-2028 sem meðal annars tengist þróun á innri kerfum dómstóla vegna stafrænna umbóta sem sé nauðsynleg forsenda þess að ná fram ávinningi af sameiningu héraðsdómstólanna.
Þannig varar dómstólasýslan við sameiningu á þeirri forsendu að hún verði að fullu fjármögnuð innan ramma gildandi fjárlaga og að auki setur hún fyrirvara í umsögn sinni við að lögin taki gildi í ágúst á næsta ári.
„Sameining héraðsdómstólanna krefst mikils og vandaðs undirbúnings. Þannig þarf að breyta innri kerfum héraðsdómstólanna, setja nýjar reglur og breyta gildandi reglum og verkferlum í verulegum atriðum. Afar hæpið er að þessum undirbúningi verði lokið fyrir 1. ágúst 2024. Þá er rétt að hafa í huga að ýmis ávinningur sem gert er ráð fyrir að náist með lagasetningunni er háður því að stafrænar umbætur hjá dómstólunum verði langt komnar. Dómstólasýslan leggur því til að gildistöku laganna verði frestað til 1. ágúst 2025,“ eins og segir í umsögn dómstólasýslunnar.
Framundan er nefndarálit og breytingartillögur en svo fer málið til annarrar umræðu í þinginu.