Skortur er á sérhæfðri þjónustu fyrir þá einstaklinga sem falla utan þess hóps sem almennum geðheilsuteymum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er ætlað að sinna. Tryggja þarf fjölbreyttum hópum viðeigandi þjónustu, s.s. einstaklingum á einhverfurófi, öldruðum og langveikum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu teymanna frá árinu 2022.
Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins starfa þrjú teymi sem sinna geðheilbrigðisþjónustu hvert á sínu upptökusvæði. Teymin sinna meðferð við flóknum geðrænum vanda en algengastar eru tilvísanir vegna kvíða og þunglyndis. Samkvæmt ársskýrslunni er meðalmeðferðartíminn 9-12 mánuðir og eftirspurnin meiri en framboðið á þeirri þjónustu sem teymin sinna.
Þar er einnig bent á að mikil uppbygging og þróun hafi verið í gangi hjá teymunum allt frá upphafi en boðið er upp á ýmiss konar meðferðir ásamt námskeiðum og fræðslu. Í hverju teymi starfar breiður hópur fagfólks með mikla þekkingu og reynslu en hvert teymi sinnir um 200 skjólstæðingum á ári.
Í tilkynningu á vef heilsugæslunnar kemur fram að geðheilsuteymin, sem sinna nú þegar verknámi fyrir nema í hjúkrun, læknisnámi og sálfræði, kalli eftir því að fá einnig til sín nema í geðlækningum, heimilislækningum, geðhjúkrun, sálfræði og félagsráðgjöf. Þá er tekið fram að innan geðþjónustu heilsugæslunnar liggi fjölmörg tækifæri fyrir þennan hóp en tryggja þurfi teymunum sama aðgengi að nemum og öðrum stofnunum svo skapa megi framtíðarstarfsvettvang fyrir fagfólk.
Fram kemur í ársskýrslunni að þverfagleg þjónusta geðheilsuteymanna hafi sannað gildi sitt og vægi þegar kemur að meðferð við flóknum geðrænum vanda. Styrkleikar teymanna liggi í breiðum faghópi starfsfólks þar sem áhersla sé lögð á góða þverfaglega teymisvinnu og þarfir notandans hafðar að leiðarljósi. Grunnhugmyndafræði teymanna er svo hin svokallaða batahugmyndafræði sem leggur áherslu á að viðhalda von og skapa betra líf með því að byggja á styrkleikum og markmiðasetningu sem stuðlar að sjálfsábyrgð og valdeflingu.