Brennisteinsvetni mælist yfir heilsuverndarmörkum nærri upptökum Múlakvíslar í Kötlujökli.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Þar segir að sökum gasmengunarinnar sé fólk beðið um að gæta varúðar nálægt upptökum árinnar.
Aðfaranótt föstudags greindi mbl.is frá því að mengun hefði þá einnig mælst. Tekið var fram að rafleiðni í ánni væri ekki óvenju há, en að búast mætti því að hún hækki.
Rafleiðni vatns segir til um styrk uppleystra rafhlaðinna efna og efnasambanda í vatninu. Þeim mun meiri sem styrkurinn er, því meiri er leiðnin.