„Gríðarlegt álag á okkar starfsfólk“

Upplýsingatæknistjóri Bónuss segir staðlabreytingarnar hafa valdið gríðarlegu álagi á starfsfólkið.
Upplýsingatæknistjóri Bónuss segir staðlabreytingarnar hafa valdið gríðarlegu álagi á starfsfólkið.

Steinar J. Kristjánsson, upplýsingatæknistjóri Bónuss, segir skakkar kortafærslur hlaupa á hundruðum hjá Bónus. Hann segir mikið álag vera á starfsfólki verslana Bónus vegna þessa og færslur hafi haldið áfram að koma rangar inn fram undir hádegi í dag.

Íslenskir korthafar hafa margir hverjir lent í því að rangar færslur hafi verið færðar af kortum þeirra um helgina og í dag. Skýrist það af því að staðlabreytingar voru gerðar á íslensku krónunni hjá alþjóðlegu kortasamtökunum. Þá voru aukastaf­ir ís­lensku krón­unn­ar, aur­ar, fjar­lægðir.

Þannig hafa færslur annað hvort verið margfaldaðar með hundrað, eða verið deilt með hundrað. 

„Þetta er bara gríðarlegt álag á okkar starfsfólk í verslunum, að taka á móti miður ánægðum viðskiptavinum sem sumir hverjir hafa lent í því að upphæðirnar eru þannig að þær tæmi hjá þeim kortin og heimildirnar. Þannig að fólk sat auralaust eftir,“ segir Steinar.

Tilkynning Íslandsbanka kom á óvart

„Þeir eru ekki búnir að setja alfarið undir lekann. Það sem kom okkur í versluninni á óvart var að Íslandsbanki setur tilkynningu inn á vefinn hjá sér að viðskiptavinir eigi annað hvort að hafna færslunni í posanum eða hafa samband við seljandann,“ segir Steinar. 

Hann segir bæði ráðin vera einfaldlega röng. Sú upphæð sem birtist í posum sé alltaf rétt, þannig hafi starfsmenn verslunarinnar og viðskiptavinurinn ekki hugmynd um að eitthvað undarlegt sé í gangi. 

„Þeir benda svo viðskiptavininum á að hafa samband við seljandann. Við höfum engan aðgang eða yfirlit til þess að sjá eða leiðrétta þessar færslur því í okkar kerfum lítur allt eðlilega út enda engin margföldun að eiga sér stað,“ segir Steinar.

Varnaðarorð virt að vettugi

Hann segir galið að þessi fyrirtæki bjóði ekki upp á betri þjónustu fyrir þeirra sameiginlegu viðskiptavini. Það hafi þó eitthvað greiðst úr flækjunni í dag og færslur verið leiðréttar hjá hluta korthafa. 

„Þetta er alveg stórmál og við margbentum á að svona aðgerðir væru gríðarlega hættulegar. Það þyrfti að prófa þær í lokuðu umhverfi fyrst, svo myndirðu prófa þetta á örfáum kössum í örfáum verslunum. Þessu væri ekki rúllað út þvert yfir landið með einu pennastriki. En það var ekki hlustað á kaupmennina í þessu,“ segir Steinar.

„Athugasemdir og varnaðarorð frá okkur voru virt að vettugi þarna og menn óðu út í þetta,“ segir Steinar. 

Spurður hvort það sé ekki galið að keyra svona breytingar í gegn yfir helgi, þegar bankar séu lokaðir segir Steinar jú.

„Það er bara stórfurðulegt og það þýðir bara að þau þurfa ekki að svara fyrir þetta. Það er fólkið sem stendur í framlínunni, það er kassastarfsfólkið okkar sem fær óánægjuölduna yfir sig. Kortafyrirtækin og bankarnir eru einfaldlega í bómull og vernduðu umhverfi og þurfa ekki að svara fyrir þetta. Þau standa ekki fyrir framan viðskiptavininn sem er orðinn auralaus og fær jafnvel ekki afhentar vörur,“ segir Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert